Menning

Jo Nesbø í ítarlegu viðtali við Vísi: Krimminn á skilið að illa sé um hann talað

Jakob Bjarnar skrifar
Jo Nesbø er orðinn svokallaður Íslandsvinur og segir landið algerlega sér á parti.
Jo Nesbø er orðinn svokallaður Íslandsvinur og segir landið algerlega sér á parti. Thron Ullberg
Glæpasagnahöfundurinn mikli Jo Nesbø segir meðal annars í viðtali við Vísi að til séu ókjör af lélegum krimmum og hann telji á stundum óvægna umræðu um glæpasögur ekki ósanngjarna, að þær standist að sumu leyti ekki samanburð við aðrar tegundir skáldskapar. Nú er hætt við að einhver svitni en allt á þetta sér sínar skýringar.

Nýjasta bókin eftir Jo Nesbø á íslensku er Sonurinn. Vísir ákvað að slá á þráðinn til hans og heyra aðeins í honum. Eða þannig. Reyndar gekk þetta ekki þannig fyrir sig, eins og að hringja í Nonna frænda og segja hæ. Jo Nesbø er alþjóðleg stórstjarna, varinn í bak og fyrir af umboðsskrifstofu sinni. Það tók nokkurn tíma að hljóta áheyrn hjá þessum glæpasagnameistara og meðan það var vegið og metið hvort blaðamaður Vísis væri nógu merkilegur til að eiga í samræðum við Nesbø, hvers tími er jú dýrmætur, ræddi Vísir stuttlega við útgefanda Nesbø á Íslandi.

Hefur selt 90 þúsund eintök á Íslandi

Egill Örn Jóhannsson er framkvæmdastjóri Forlagsins en dótturfyrirtæki þess er svo JPV sem gefur Nesbø út á Íslandi. Egill Örn segir vinsældir Nesbø ævintýralegar. 90 þúsund eintök bóka hans hafa selst á Íslandi. Á prenti hafa komið út á íslensku 20 titlar, 30 ef rafbækur og hljóðbækur eru taldar með. „Tvær glæpasögur og ein bók ætluð börnum og unglingum eftir hann hafa komið út á þessu ári og útlit fyrir að aðrar tvær komi út á næsta ári. Sonurinn er nýútkominn,“ segir Egill Örn.

Nánast allt sem Jo Nesbø hefur sent frá sér hefur komið út á íslensku. „Við höfum verið að gefa út tvær bækur á ári til að ná í skottið á honum, ef svo má segja. Hann er afkastamikill höfundur eins og ekki er óalgengt með krimmahöfunda, hefur sent að lágmarki eina bók frá sér á ári. Undanfarna tvo áratugi eða svo.“

Margir bitust um Nesbø þegar Uppheimar fóru undir

Svo við tæmum útgáfusöguna þá kom fyrsta bók eftir Nesbø út á vegum Máls og menningar fyrir níu árum. Þetta var barnabók, Doktor Proktor og prumpuduftið (2008). Það var svo bókaútgáfan Uppheimar sem tryggði sér útgáfuréttinn á glæpasögum þessarar rísandi norsku stjörnu og fór að gefa Nesbø út á íslensku. Sú fyrsta sem kom út var Rauðbrystingur (2009) en fyrirtækið lenti síðar í rekstrarörðugleikum, eins dauði er annars brauð og fyrsta bók Nesbø undir merkjum JPV kom út árið 2015, Blóð í snjónum.

„Þetta var mikil vinna að fá útgáfuréttinn og fleiri en einn útgefandi sem kepptust um hann þá. Tíu bækur eftir Nesbø hafa komið út hjá JPV auk rafbóka,“ segir Egill Örn en það er Bjarni Gunnarsson sem þýðir og gerir það með miklum ágætum.

Afslappaður Nesbø býður góðan daginn

Þetta fer að verða býsna langur inngangur en þó verður að geta þess að bækur Nesbø hafa verið þýddar á 50 tungumálum og bækur hans hafa selst í 36 milljónum eintaka á heimsvísu. Honum hafa hlotnast 40 verðlaun og viðurkenningar fyrir bækur sínar. „Þetta er alþjóðleg stjarna og í efstu sætum á metsölulistum um allan heim,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, en JPV er undir þeirri regnhlíf eins og áður segir.

Sonurinn er það nýjasta nýtt sem ber fyrir augu íslenskra lesenda. Stórsnjöll og ber ýmis einkenni bandaríska krimmans. Væntanleg er bókin Þorsti sem fjallar um Harry Hole.
Eftir að umboðsskrifstofan hafði lagt blessun sína yfir það að hinn íslenski blaðamaður fengi viðtalsbil við Nesbø fékk hann sent símanúmer með mikilli leynd. Þessi aðdragandi að eins og einu viðtali var orðinn býsna formlegur og því kom það ánægjulega á óvart hversu afslappaður, hógvær og stælalaus Nesbø reyndist þegar til kastanna kom. Hann var kátur með að heyra af því að íslenskir lesendur kynnu vel að meta bækur hans.

Umsetinn af Íslandi

„Það er gaman að heyra. Fyrir tilviljun var ég að lesa bók eftir Arnald Indriðason í gærkvöldi og varð því undrandi að sjá að á dagskrá nú væri að ræða við íslenskan blaðamann. Ég hef komið nokkrum sinnum til Íslands, Reykjavíkur auðvitað sem er ákaflega falleg borg. Ég elska Reykjavík. Og bókin sem ég er að lesa fjallar um Reykjavík og ég mun halda áfram að lesa hana, eftir þetta viðtal,“ segir Nesbø sposkur, og helst á honum að heyra að honum sé um og ó, hversu óvænt hann er umsetinn af Reykjavík og Íslandi.

Hann er reyndar orðinn Íslandsvinur. Hann hefur komið hér nokkrum sinnum að undanförnu til að hitta Baltasar Kormák kvikmyndaleikstjóra en þeir vinna að kvikmyndahandriti sem byggir á óútkominni bók hans, I am Victor. Búnir að skrifa þrjú drög og allar líkur á að myndin fari í tökur á næsta ári. Jafnvel að myndin verði tekin í stúdíói á Íslandi þó hún eigi að gerast í London. Baltasar og Nesbø fengust við skriftir á Eyrarbakka þar sem þeir fengu sér humar og í Reykjavík, á skrifstofum Baltasars. Nesbø veit ekki hversu mikið hann má tjá sig um það verkefni, það ríkir ávallt talsverð leynd um verkefni í kvikmyndabransanum.

Nesbø hefur komið nokkrum sinnum að undanförnu til Íslands til að hitta Baltasar Kormák en þeir vinna saman að handriti sem byggir á óútkominni bók Norðmannsins, I am Victor.
Nesbø býr í Ósló og unir hag sínum vel. Hann svarar spurningunni um hvort hann sé fjölskyldumaður með bæði já-i og nei-i. Hann á dóttur og var einmitt í herbergi hennar í þessu símtali, í íbúð sinni í miðri Óslóarborg.

Skrifað í skýin að hann yrði rithöfundur

Margir hafa furðað sig á hinum einstaka ferli Nesbø. Hann var efnilegur í fótbolta og stefndi ótrauður í atvinnumennsku en meiðsl komu í veg fyrir það, var í rokkhljómsveit sem naut talsverðrar velgengni, söng þar og samdi lög og texta auk þess sem hann starfaði sem verðbréfasali. Hann vendir þá kvæði sínu í kross og beinir sjónum sínum að skriftum.

Af hverju fórstu að skrifa, hvernig gerðist það?

„Ég held ég hafi alltaf verið að skrifa, með einum hætti eða öðrum. Jafnvel sem krakki og unglingur. Þá skrifaði ég texta fyrir hljómsveit vina minna, ég var þá ekki í hljómsveit. Var sískrifandi. Og ég man að þegar ég sagði vinum mínum frá því að ég ætlaði að senda frá mér plötu, ég og hljómsveitin mín, þá urðu þeir mjög undrandi. En mörgum árum síðar, þegar ég var 37 ára og sagði þeim að ég ætlaði að senda frá mér bók, þá kom það þeim ekki á óvart. Frekar: Af hverju ertu ekki búinn að því fyrir löngu? Það var einhvern veginn skrifað í skýin.“

Sló í gegn með Rauðbrystingnum, sinni 3. bók

Þú hefur sem sagt alltaf vitað að þetta ætti fyrir þér að liggja?

„Ég veit ekki hvort það var meðvitað. Þetta kom hins vegar mjög eðlilega til mín. Ég man að þegar ég var í Ástralíu 1997 og byrjaði að skrifa fyrstu skáldsögu mína, bara strax á fyrstu tveimur eða þremur blaðsíðunum leið mér eins og ég væri kominn heim. Mjög eðlilegt. Ég veit hvernig á að gera þetta. Mjög einkennilegt því það er ýmislegt sem ég hef tekið mér fyrir hendur sem ekki hefur verið mér eðlislægt. Ekki eins og ég hafi verið að koma heim. Til dæmis þegar ég fór með hljómsveit í hljóðver þá var það mjög framandi. Það var nokkuð sem ég þurfti að venjast og læra á.

En með skriftirnar, einhvern veginn kunni ég til verka. Auðvitað vissi ég ekkert en mér leið þannig.“

Já, ef marka má viðtökurnar var og er Nesbø kominn á rétta hillu sem rithöfundur. Um það þarf vart að deila. Hann var orðinn 37 ára gamall þegar hann fór að fást við skriftir af fullri alvöru. Og það sem var óvenjulegt, að sögn Jo Nesbø, er að fyrsta tilraun hans til að skrifa skáldsögu, nokkuð sem hann hafði litið á sem tilraun, hún var gefin út. Þetta er bókin Leðurblakan.

Fyrsta bókin, Leðurblakan, hlaut lofsamlega dóma og Rauðbrystingur sló í gegn, þá vissi Nesbø að hann gæti séð sér farborða sem rithöfundur.Paal Audestad
„Hún seldist ekki mjög vel. En hún hlaut góðar viðtökur og hlaut verðlaun sem besta skandinavíska glæpasagan þá. Þetta var ákaflega uppörvandi byrjun. En það var sennilega ekki fyrr en með þriðju bókinni, Rauðbrystingur, sem nær í gegn, að ég áttaði mig á því að ég gæti séð fyrir mér með skriftum.“

Hamsun, Hemingway… og svo Thompson

Ekki verður svo rætt við rithöfund að hann sé ekki spurður um áhrifavalda og eftirlætishöfunda.

„Þeir sem hafa haft mest áhrif á mig eru sennilega ekki þeir sem teljast til glæpasagnahöfunda. Það væru fremur menn, og nú er ég ekki að líkja mér á neinn hátt við þá – ég held að maður verði fyrir áhrifum af öllu sem maður les þó maður reyni ekki að líkjast þeim - eins og Knut Hamsun. Hann er mikilvægur höfundur. Ernest Hemingway, Vladimir Nabokov og síðar Charles Bukowski.

Eini glæpasagnahöfundurinn sem ég tel mig hafa sótt eitthvað til er Jim Thompson. Hann skrifaði The Killer Inside Me, Pop. 1280; ég myndi segja að hann hafi skrifað American Psycho þrjátíu árum áður en Bret Ellis sendi þá bók frá sér.“

Ég sá þig vísa til þeirrar bókar í viðtali eitt sinn, þar sem þú talaðir um lýsandi dálæti aðalpersónunnar á hljómsveitinni Genesis, og þess að hann teldi hljómsveitina hafa verið núll og nix áður en Phil Collins tók við míkrófóninum þar á bæ og leysti Peter Gabriel af. Það segði meira en mörg orð um hversu geggjaður Bateman raunverulega er?

„Já. Tónlistarlegar vísanir í bókum geta verið mjög skilvirkar til að lýsa persónum og aðstæðum. Ekki bara til að skírskota til einhverrar tísku, fólk tengir með svo margvíslegum hætti við tónlist. Og það segir mikið um persónur á hvaða kvikmyndir þær horfa og á hvernig tónlist þær hlusta.“

Ísland algerlega sér á parti

Í Syninum er ein aukapersóna, sem reyndar kemur þannig við sögu að hún kemur ekki við sögu. Þar er um að ræða yfirfangelsisstjóra sem eftirlætur aðstoðarfangelsisstjóra að sjá um reksturinn. Yfirfangelsisstjórinn er hins vegar í góðu yfirlæti á Íslandi, þar sem hann til dæmis baðar sig í Bláa lóninu og lifir lífinu. Segir ekki meira af því. En af hverju Ísland, hvað er hann að gera á Íslandi?

„Já, ég geri ráð fyrir því að hann sé FARINN til Íslands,“ segir Nesbø eins og það hafi alveg sérstaka þýðingu. „Sko, ég hef verið á Íslandi og það er mjög öðruvísi, einstakur staður og hefur þá ímynd. Það er mjög auðvelt að skrifa um Ísland því landið er svo afgerandi og sérstakt. Það má lýsa staðnum með mjög fáum setningum. Jafnvel fyrir fólki sem aldrei hefur komið þangað. Það er enginn staður eins og Ísland. Að fara til Íslands er fyrir flestum eins og áfangastaður sem þýðir algerlega að maður sé að fara í burtu. Frá öllu. Frá öllu sem þú þekkir. Þú ert ekki við. Þú ert ekki heima.“

Snorri Sturluson var snillingur

Það verður vitaskuld ekki komist hjá því að spyrja Nesbø hvort hann hafi lesið okkar sameiginlega arf, Íslendingasögurnar. Og hann segir að svo sé, reyndar.

„Já. Fyrir löngu. Þegar ég var krakki.“

Eru norskir krakkar neyddir til að lesa þetta í skólum?

„Ég held að það eigi almennt við um þær bókmenntir sem krakkar lesa í skóla, að það sé eitthvað sem þeim finnst þau neydd til að lesa. En það á ekki við um Íslendingasögur. Þegar þú ert krakki finnst þér þær spennandi svona eins og X-men-sagan er á vorum tímum. Hugsa ég.“

Sumir fræðimenn eru reyndar þeirrar skoðunar að til að vera hreinlega skrifandi þurfi menn að leggjast í Íslendingasögurnar. Hvernig horfir þetta við þér?

„Það sem ég tek út úr þeim er húmorinn. Þessi launfyndni. Undirliggjandi er fullvissa þess að við munum deyja. Hráslagalegur húmorinn og nálægðin við líf og dauða eru nærtæk fyrirbæri í Íslendingasögunum. Tæknilega reiðir frásagnarhátturinn sig á það að lesandinn sé sér meðvitandi um nálægð dauðans, höfundurinn treystir því að hann sé að skrifa fyrir þá sem búa yfir ímyndunarafli og greind. Ég held að Snorri Sturluson vinni snilldarlega úr þessu.“

Mamma hans hafði dálæti á Halldóri Laxness

Nesbø segir að þetta sé vitaskuld nokkuð sem læra megi af.

„Já, ég held reyndar að maður læri af öllu sem maður les. Ekki bara af góðum bókum heldur einnig vondum. Þú lærir hvernig á að gera hlutina og hvernig á ekki að gera þá.“

En hefurðu lesið einhverja seinni tíma íslenska höfunda?

„Já, ég hef lesið Arnald Indriðason. Og ég er viss um að ég hef lesið eitthvað meira íslenskt, sem telst þá væntanlega til klassíkur, en man ekki alveg nöfnin. Ég las mikið þegar ég var ungur. Móðir mín var bókasafnsvörður og það voru margar bækur heima.

Mamma var mikill aðdáandi Halldórs Laxness og ég las eitthvað eftir hann.“

Nesbø gerir nú hlé á samtalinu og vill athuga hvort hann finni ekki einhverjar bækur eftir Laxness, sem hann er viss um að eru einhvers staðar í hillum hans. En verður að gefast upp á leitinni. Ljóst er það eru miklar bókahillur á heimili glæpasagnahöfundarins mikla.

Reiðinnar býsn til af vondum glæpasögum

Blaðamaður notar tækifærið, meðan Norðmaðurinn leitar að Laxness, til að upplýsa Nesbø um að Sjálfstætt fólk sé að einhverju leyti svar við þeirri heimsmynd sem birtist í Gróðri jarðar eftir Hamsun. En er ekki viss um að hafa náð því að vekja óslökkvandi áhuga hins norska glæpasagnahöfundar á hinu íslenska Nóbelsskáldi með því tali.

„Nei, ég finn þetta ekki.“

En talandi um það, í bókmenntaheiminum hafa glæpasögur af mörgum verið taldar óæðri. Þær eru flokkaðar sérstaklega, höfundarnir eru kallaðir glæpasagnahöfundar þá til aðgreiningar frá alvöru höfundum, talað er um formúlubækur og að þar sé verið að mála eftir númerum. Hvernig snýr þetta við Nesbø?

„Ég er sammála þessu.“

Ha?

„Upp að ákveðnu marki. Ég held að glæpasögur almennt eigi skilið þetta illa orðspor. En það þýðir ekki að ég telji að góðar glæpasögur eigi ekki heima við hlið annarra tegunda bóka. En ég held að vandinn sé sá að þetta er svo stórt svið. Það er stór markaður fyrir glæpasögur sem gerir höfundum kleift að lifa á því að skrifa vondar glæpasögur. En í öðrum tegundum skáldskapar er ekki markaður fyrir slíkt. Fólk gæti ekki lifað af því að skrifa lélegar bækur sem tilheyra öðrum greinum skáldskapar,“ segir Jo Nesbø og er greinilega ekki að horfa til ríkisstyrkja í þessari greiningu sinni. Heldur horfir til markaðarins alls og heimurinn allur er undir.

Móðgast ekki þó glæpasögur teljist ómerkilegar

Nesbø hnykkir á þessum kenningum sínum um hvernig það má vera að krimminn hafi svona illt orð á sér.

„Sem sagt; að vera slakur höfundur í öðrum tegundum bókmennta gengur ekki upp vegna lögmála markaðarins.

En markaður fyrir glæpasögur er svo stór, svo mikil eftirspurn, að lélegir glæpasagnahöfundar geta átt ágætri velgengni að fagna og jafnvel notið athygli.

Og haft marga lesendur. Það er allt í lagi. Fólk þarf létta afþreyingu og þarf jafnvel vondar bækur. En fyrir mitt leyti eru þeir sem skrifa hágæðaglæpasögur meðal minna eftirlætis höfunda, þá að öllum meðtöldum. Ég var að ljúka við að skrifa inngangsorð að L.A. Quartet eftir James Ellroy fyrir þýskan markað. Og við að lesa bækur á borð við L.A. Confidential, þetta er einfaldlega frábær bók. Ekki sem glæpasaga heldur sem góðar bókmenntir.“

En þegar þetta er lagt upp svo að glæpasögur séu óæðri tegund skáldskapar móðgast margir, sumir lesendur og þá ekki síður þeir sem fást við að skrifa bækur af því tagi. Það á þá væntanlega ekki við um þig?

„Nei, alls ekki. Ég held að skilgreiningin á þessari tegund bókmennta sem slíkri sé sanngjörn. Sanngjörn gagnrýni. Þessi tegund bókmennta og höfunda hefur fengið það orð á sig sem hún á skilið. Og ég held að það orðspor byggist ekki á miklum misskilningi heldur sé raunsönn lýsing. Að jafnvel í Skandinavíu þar sem eru svo margir glæpasagnahöfundar, og gæðin mikil, séu jafn margir vondir glæpasagnahöfundar og annars staðar í heiminum.“

Hefur fengist við flestar tegundir skáldskapar



Hvernig stendur á þessum vinsældum glæpasagna á Norðurlöndum, sér í lagi sé litið til þess að sá skiki jarðar er sennilega með þeim öruggustu?

„Kannski er það einmitt ástæðan. Stríðssögur eru fleiri skrifaðar á friðartímum en þegar stríð geisar. Kannski er þetta einhver löngun eftir framandi slóðum. Eins og að fara til Íslands. Að lesa glæpasögu er eins og að fara til Íslands.“

Nesbø hefur fengist við flestar tegundir skáldskapar en frægastur er hann fyrir glæpasögur sínar um Harry Hole.Hakon Eikesdal
Þú hefur skrifað barnabækur sem mörgum þykir skjóta skökku við þegar horft er til þess hversu myrkar glæpasögur þínar eru. Ekki að þær geti ekki verið býsna hrollvekjandi sumar barnaþulurnar. Hefur þú íhugað að skrifa eitthvað fyrir fullorðna sem er ekki í þessum norræna noir-stíl glæpasögunnar?

„Já, og ég hef reyndar gert það. Ég skrifaði smásagnasafn, en það var áður en farið var að þýða bækur mínar. Þær eru óþýddar. Svo hef ég skrifað blaðamannabók, heimildabók, um stríðin í fyrrum Júgóslavíu. Ég hef skrifað söngleiki fyrir leikhúsin …“

Já, hvað hefurðu eiginlega ekki fengist við, hefði verið betri spurning. En aðallega hefur þú fengist við að skrifa um lögreglumanninn Harry Hole?

„Já, það hefur verið meginviðfangsefni mitt.“

Harry Hole orðin þungamiðja verka hans

Nesbø hefur sem sagt ekki sagt skilið við þessa frægu persónu sína. Hann var að ljúka við að skrifa 11. bókina í bókaflokknum um Harry Hole. Hann er við ágæta heilsu og hress. En nú hafa sumir höfundar lent í því að leggja á flótta frá sínum frægustu persónum. Með misgóðum árangri.

„Ég get skilið það, ef þér finnst þú einhvern veginn fastur með persónu.

Ég er ekki einn þeirra höfunda sem finna til hollustu gagnvart lesendum sínum. Eins og ég skuldi þeim eitthvað.

Ég er ekki að skrifa um Harry Hole vegna þess að ég telji það á einhvern hátt kröfu frá lesendum og útgefanda sem ég þarf að verða við. Hvað mig varðar þá hef ég meiri áhuga á þessari persónu nú en í fyrstu bókunum. Þar var hann ekki miðlæg persóna bókaflokksins, hann var meira bak við myndavélina, hann var sögumaður, við sáum heiminn í gegnum augu hans. Nú hefur hann fært sig fram fyrir linsuna. Hann hefur orðið að aðalpersónu, ekki bara sá sem rannsakar. Hann er miðpunktur athyglinnar og siðferðilegar spurningar sem hann þarf að takast á við hafa orðið að meginumfjöllunarefni bókaflokksins.“

Djúpur skilningur ríkir milli Hole og Nesbø

Þú talar um Harry Hole sem eins konar sálufélaga þinn.

„Já, ég held að þegar þú hefur skrifað um aðalpersónu þína í svo mörg ár verður hann, ekki kannski alteregó þitt en það er óhjákvæmilegt að persónan þiggi eigindir frá höfundinum, ekki tvíburabróðir en bróðir þinn.

Og það myndast eins konar samræður við persónuna, stundum ertu sammála henni og stundum ekki, en ég held að það ríki djúpur skilningur milli aðalpersónunnar og höfundar.“

Nú hef ég veitt þessari tilhneigingu höfunda athygli, í gegnum árin, að þær tala stundum um persónur sínar sem þær séu manneskjur af holdi og blóði.

„Já, ég held að það sé … ég fór í gegnum tímabil þar sem ég las ekki skáldskap. Af því að ég var hættur að trúa á skáldskap sem leið, eða þetta er svipað og með þá sem hafa starfað í eldhúsi og hætta að fara á veitingahús.

En eftir nokkurn tíma enduruppgötvaði ég skáldskap. Mér fannst athyglisvert að vera inni í kolli einhvers. Og það er einhver raunveruleiki sem býr í skáldskap sem er um hugmyndir og ímyndunarafl fólks. Þú lest ekki aðeins það sem er að gerast á síðunum heldur ertu einnig inni í hugarflugi einhvers. Persónur mínar eru ekki raunverulegar en höfundurinn er raunverulegur og þannig virkar skáldskapur núna.

Nú er ég að lesa Steppenwolf eftir Hermann Hesse, stórkostleg saga. Flestir lesa þessa bók ungir. Ég komst aldrei til þess en er að gera það núna. Bókin er auðvitað ekki um Harry Haller, sem er aðalpersóna bókarinnar, ég hef ekki áhuga á honum heldur Hermann Hesse. Meðan ég er að lesa um Steppenwolf er ég einnig að lesa um ævisöguleg atriði úr ævi Hermanns Hesse. Sem er augljóslega að skrifa um sig sjálfan, það sér maður þegar æviágrip hans eru skoðuð. Hann er að ganga í gegnum nákvæmlega það sama og Harry Haller. Það er það sem ég á við, að áhugavert sé að vera í kolli höfundarins.“

Að bjarga norrænu sakamálasögunni

Við svo búið kvaddi Jo Nesbø enda hefur verið syndgað rækilega upp á náðina hvað varðar þann tímaramma sem ætlaður var af umboðsmanni hans í þetta viðtal; stundaskráin hans er þéttriðin.

Bjarni þýðandi úti í Noregi, á söguslóð. Hann telur ekki fráleitt að ætla Nesbø hafi hreinlega bjargað norrænu glæpasögunni frá stöðnun.
Það er ekki úr vegi að slá botn í þetta með að heyra aðeins í þýðanda hans á Íslandi. Sem er Bjarni Gunnarsson, en hann hefur þýtt tíu bækur af 15 sem komið hafa út á íslensku eftir Nesbø. Blaðamaður slær því fram af talsverðu ábyrgðarleysi að Nesbø hafi bjargað norrænu glæpasögunni frá seigdrepandi stöðnun; frá hinu norræna samfélagslega raunsæi sem rekja má til bóka Sjöwall og Wahlöö til höfunda á borð við Mankell og Arnald þar sem krimminn hefur komist í hálfgerða úlfakreppu. Þar til Nesbø nær einhvern veginn að tengja norræna samfélagslega raunsæið við bandaríska glæpasagnahefð.

„Jaaaaá. Já. Ég myndi alveg taka undir það,“ segir Bjarni varfærnislega. Og ljóst að honum þykir þetta fremur glannalegar staðhæfingar. Í Syninum eru amerísk einkenni. Nesbø byggir til að mynda rammgirt öryggisfangelsi í miðri Ósló. Og hann hefur leitað fanga víða, sent söguhetju sína til Afríku, Hong Kong, Ástralíu. „Hann sækir blóð til annarra landa. Harry Hole er ekkert að tapa sér í þessu daglega lífi, laus og liðugur frá því. Hann rekst ekki vel í heimili.“

Norræna glæpasagnahefðin fléttast saman við bandaríska krimmann

Upphaflega átti bókaflokkurinn að vera tíu bækur og Bjarni segir að það séu ákveðin sögulok í Löggunni en þar sé þó að finna lausa þræði sem Nesbø hefur spunnið lengra.

„Það eru nógu margir þræðir að spinna. Sem er þetta form. Margir þræðir tvinnast saman. Aðalþráðurinn klárast, glæpamálið, en sögu Harrys vindur fram og einstaka óuppgerðum málum. Þrjár fyrstu sem ég þýddi voru svona þríleikur, Rauðbrystingur, Nemesis og Djöflastjarnan. Óslóarþríleikurinn. Hver og ein þeirra snýst um eltingarleik við tiltekinn glæpamann og svo var einn þráður sem tengdi þær allar; barátta Harrys við spillta lögreglumenn og að gera sig svakalega óvinsælan. Eitt minnið í þessum lögreglusögum, óvinsæla löggan, drykkjuskapinn og svo að vera þessi einfari sem býr yfir sterkri réttlætis- og siðferðiskennd. Hann fer aldrei yfir ákveðin prinsipp í þeim efnum þótt hann sé oft á hálum ís. Og svo er þetta með líf og dauða, hann er drykkfelldur og þunglyndur og oft á barmi glötunar, en að kála sér er algjört „nono“. Hann er mikið á móti sjálfsmorðum. Hefur sterka lífshvöt.“

Öll þessi einkenni og fleiri má ýmist finna í bandaríska krimmanum og/eða í norrænu glæpasögunni. Bjarni segir styrkleika Nesbø vera helstan þann að hann sé meistari fléttunnar. Og svo þetta sem hann ræður svo vel við sem eru langir og fróðlegir útúrdúrar sem svo alltaf tengjast. Þetta hefur hann á valdi sínu án þess að tapa nokkru sinni þræðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.