Innlent

Hugsanlegt að Baldur sigli ekki meira á árinu

Atli Ísleifsson skrifar
Baldur siglir milli Stykkishólms og Brjánslæks.
Baldur siglir milli Stykkishólms og Brjánslæks. Vísir/gva
Hugsanlegt er að Baldur sigli ekki meira á þessu ári vegna bilunar í vél ferjunnar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eimskip. Þar segir að eftir vinnu síðustu daga sé það mat sérfræðinga að nauðsynlegt sé að taka vélina úr Baldri og flytja hana á verkstæði Framtaks.

„Þetta er gert þar sem ekki reyndist mögulegt að slípa sveifarás vélarinnar um borð og tryggja að hann yrði í lagi þannig eins og stefnt var að. Þetta gerir það að verkum að eitthvað lengri tími mun líða áður en Baldur getur hafið siglingar aftur en rétt að geta þess að einhver tími mun sparast við samsetningu.

Nú eru aðeins 5 vikur til áramóta og gæti staðan orðið sú að Baldur sigli ekki meira það sem eftir lifir árs. Unnið verður að fullum krafti að viðgerð en eins og áður segir er um flókið verk að ræða og munu verða sendar út tilkynningar um leið og nánari tímasetningar liggja fyrir.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda,“ segir í tilkynningunni.

Baldur siglir yfir Breiðafjörðinn, milli Stykkishólms og Brjánslæks.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×