Erlent

Fjórir Norður-Kóreumenn grunaðir um aðild að drápinu á Kim Jong-nam

Atli Ísleifsson skrifar
Doan Thi Huong frá Víetnam í fylgd lögreglu þegar hún heimsótti flugvöllinn í Kúala Lúmpúr í síðasta mánuði.
Doan Thi Huong frá Víetnam í fylgd lögreglu þegar hún heimsótti flugvöllinn í Kúala Lúmpúr í síðasta mánuði. Vísir/AFP
Lögregla í Malasíu hefur birt nöfn fjögurra manna sem grunaðir eru um aðild að morðinu á Kim Jong-nam, hálfbróður Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu.

Á sama tíma halda málaferli á hendur tveimur konum, þeim Siti Aisyah frá Indónesíu og Doan Thi Huong frá Víetnam, áfram en þær eru grunaðar um að hafa eitrað fyrir Kim Jong-nam. Verjendur þeirra Siti Aisyah og Huong segja að þær hafi verið gabbaðar og að þær hafi ekki vitað að þær væru að eitra fyrir Kim.

Á myndbandsupptökum á flugvellinum í Kúala Lúmpúr sést til fjórmenninganna, sem Interpol lýsti eftir í mars, þar sem þeir sjást ræða við konurnar skömmu áður en þær eitra fyrir Kim.

Í frétt Reuters kemur fram að mennirnir sem um ræðir – Hong Song Hac, Ri Ji Hyon, Ri Jae Nam og O Jong Gil – séu Norður-Kóreumenn. Er einn mannanna sagður vera starfsmaður sendiráðs Norður-Kóreu og annar starfsmaður norður-kóreska flugfélagsins Air Koryo.

Ráðist var á Kim á flugvellinum í Kúala Lúmpúr í febrúar síðastliðinn og lést hann um tveimur tímum eftir að eitrað hafði verið fyrir honum.

Árásin er talin tengjast norður-kóreskum stjórnvöldum, en Norður-Kóreustjórn hefur ítrekað hafnað slíkum ásökunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×