Skoðun

Gerum betur fyrir fólkið í landinu

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Í kosningunum á laugardaginn er tækifæri til að kjósa öðruvísi forystu fyrir Ísland. Forystu sem leggur sig fram um að gera betur og skapa samstöðu um langtímasýn fyrir fólkið í landinu þannig að hægt sé að skapa pólitískan stöðugleika og ráðast í nauðsynlega uppbyggingu samfélagslegra innviða.

Við Vinstri græn höfum farið og hitt kjósendur fyrir þessar kosningar. Það er kallað eftir því að sú efnahagslega hagsæld sem við búum við skili sér betur til fólksins í landinu. Að við vanrækjum ekki innviðina en setjum okkur áætlun um hvernig á að byggja upp til framtíðar.

Í þeim efnum er okkar sýn skýr. Við viljum ábyrga stjórn efnahagsmála og styrkja tekjugrunn ríkisins, m.a. með auknum arðgreiðslum, bættu skattaeftirliti og tryggja það að arðurinn af sameiginlegum auðlindum skili sér með sanngjörnum hætti til fólksins í landinu. Við viljum eiga víðtækt samráð um skattkerfið í stað þess að ráðast í skammlífar breytingar í bullandi ósætti.

Um leið er það ábyrg stefna að ráðast í uppbyggingu á mikilvægum almannagæðum. Við höfum efni á betri vegum sem eru nauðsynlegir innviðir bæði fyrir fólkið í landinu og stærstu útflutningsgrein landsins, ferðaþjónustuna. Við viljum forgangsraða fjármagni til opinbera heilbrigðiskerfisins og tryggja að lykilstofnanir eins og Landspítalinn geti staðið undir hlutverki sínu. Við viljum leggja áherslu á menntun sem er undirstaða hagsældar og velferðar til framtíðar. Við tökum undir kröfu eldri borgara um að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna strax í 109 þúsund krónur og viljum vinna með öryrkjum að því að draga úr skerðingum og bæta kjör þeirra. Við viljum lengja fæðingarorlof í áföngum í 12 mánuði og styðja við ungt fólk sem er að koma sér þaki yfir höfuðið. Við viljum ráðast í aðgerðir strax í loftslagsmálum og bæta réttarstöðu brotaþola kynferðisbrota samhliða aukinni fræðslu og forvörnum í þeim efnum. Við viljum tryggja starfsumhverfi og frelsi óháðra fjölmiðla. Með skynsamlegri forgangsröðun fjármuna er hægt að ráðast í uppbyggingu sem skilar sér til fólksins í landinu. Með breyttum stjórnmálum er hægt að tryggja samstöðu um þá uppbyggingu.

Höfundur er þingmaður og formaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.




Skoðun

Sjá meira


×