Menning

Ánægð að það skuli vera þessi gróska í hönnun í Hafnarfirði

Magnús Guðmundsson skrifar
Minkurinn í Sverrissalnum í Hafnarborg.
Minkurinn í Sverrissalnum í Hafnarborg. Mynd/Áslaug Íris Friðjónsdóttir
Um helgina verða opnaðar tvær hönnunarsýningar en þær eiga rætur að rekja til ólíkra heimshluta.

Í aðalsalnum verður opnuð sýningin Japönsk nútímahönnun 100, farandsýning með áherslu á hönnun nytjahluta frá 2010 til 2017 en í Sverrissal sýningin Með augum Minksins –­ hönnun, ferli, framleiðsla. Minkurinn er ferðavagn, íslensk hönnun og framleiðsla.

Ágústa Kristóferðsdóttir segir að það séu skyldleikar á milli japanskrar og skandinavískrar hönnunar.Mynd/Margrét Seema Takyar
Ágústa Kristófersdóttir, forstöðumaður Hafnarborgar, segir að síðustu ár hafi að minnsta kosti ein sýning á ári í Hafnarborg verið helguð hönnun.

„Á síðasta ári vorum við t.d. með sýningu á keramikhönnun. Síðan höfum við líka verið að horfa á borgarskipulag og þá sérstaklega umhverfishönnun í Hafnarfirði.“

Ágústa segir að sýningarnar eigi það sameiginlegt að hér er á ferðinni iðnhönnun. 

Hvernig stendur á því að þessi japanska sýning er komin til Hafnarfjarðar?

„Þetta er sýning sem var fyrst sett saman fyrir þrettán árum af Japan Foundation og endurnýjuð 2014 og er á ferð um heiminn. Þetta er mjög falleg sýning, hönnuð af japanskri arkitektastofu og kemur alveg tilbúin til okkar.“

Er mikill munur á japanskri hönnun og til að mynda vestrænni?

„Nei, í sjálfu sér ekki. Japanir voru náttúrulega mjög leiðandi um miðja tuttugustu öldina í allri hönnun, hátækni og framleiðslu. Síðan eru mjög sterk og skýr tengsl á milli Japans og Skandinavíu og eins Japans og módernismans sem er áhugavert fyrir okkur að skoða.“

Munir á sýningunni Japönsk nútímahönnun 100, í aðalsal Hafnarborgar.Mynd/Áslaug Íris Friðjónsdóttir
Ágústa segir að það sé líka mjög spennandi að skoða sýninguna í Sverrissal en hún sé ekki bara íslensk heldur úr Hafnarfirðinum.

„Þegar við vorum búin að setja þessa japönsku sýningu á dagskrá fórum við að leita að íslenskri iðnhönnun. Þá vorum við svo heppin að í Íshúsinu í Hafnarfirði eru aðilar sem hafa verið að vinna að hönnun Minksins, þessa skemmtilega ferðavagns, um nokkurra ára skeið. Minkurinn er kominn í prufueintaki og var á ferð um landið í sumar. Nú er hann kominn upp á pall í Hafnarborg og við höfum með honum allar upplýsingar um þetta langa ferli sem liggur að baki. 

Þetta ferli sem er líka að baki hverjum einasta grip á japönsku sýningunni sem felur í sér samvinnu margra aðila, endalaust samtal og drifkraftinn sem þarf til þess að hrinda hugmynd í framkvæmd. Gera hugmynd að veruleika, verða að grip sem er verið að fjöldaframleiða. Við erum gríðarlega ánægð með að það skuli vera gróska sem þessi í Hafnarfirði. Það er frábært.“ 








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.