Formúla 1

Brendon Hartley mun fylla autt sæti hjá Toro Rosso

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Brendon Hartley
Brendon Hartley Vísir/Getty
Brendon Hartley, fyrrum ökumaður í uppeldisakademíu Red Bull liðsins mun taka sæti Carlos Sainz í bandaríska kappakstrinum. Hann mun aka við hlið Daniil Kvyat sem snýr aftur í fjarveru Pierre Gasly.

Gasly sem tók sæti Kvyat í síðustu tveimur keppnum, í Japan og Malasíu verður í Japan að berjast um titilinn í Súper Formúlu mótaröðinni.

Sainz tekur sæti hjá Renault og því þarf að fylla tvær stöður ökumanna hjá liðinu. Bandaríski kappaksturinn fer fram 20.-22. október.

Kvyat hefur ekki ekið í keppni síðan í Singapúr 17. september. Það verður því rúmur mánuður sem Rússinn hefur fengið í frí.

Hartley, sem er 27 ára varð meistari í WEC, þolakstursmótaröðinni árið 2015. Hann leiðir keppnina í ár eftir sigur í Le Mans sólarhringskappakstrinum.

„Þetta er ótrúlega spennandi tækifæri, þetta tækifæri kom mér á óvart. Ég hætti aldrei að vilja uppfylla æskudrauminn um að ná að keppa í Formúlu 1,“ sagði Hartley.

„Ég hef vaxið og lært svo mikið síðan ég var varaökumaður Red Bull og Toro Rosso. Árin hafa gert mig sterkari og enn ákveðnari,“ bætti Hartley við.

„Ég vil þakka Red Bull fyrir að gera þetta að veruleika og Porsche fyrir að leyfa mér að nýta tækifærið samhliða WEC. Bandaríska brautin er mjög skemmtileg og ég keppti þar fyrir skömmu. Ég er að vanda mig við það núna að setja ekki of mikla pressu á frumraun mína í Formúlu 1 en ég upplifi mig tilbúinn að takast á við áskorunina,“ sagði Hartley að lokum.


Tengdar fréttir

Hamilton: Ég þurfti að hafa mig allan við

Lewis Hamilton landaði 25 stigum í dag með frábærum akstri. Hann vann þar með sinn áttunda kappakstur í Formúlu 1 á tímabilinu. Hver sagði hvað eftir tímatökunni?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×