Skoðun

Framtíð fyrir alla

Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar
Framtíðin er óljós og tækifærin eru óendanleg. Sem betur fer vil ég segja. Fram undan eru ótrúleg tækifæri og áskoranir þegar kemur að þeim tækniframförum sem eru handan við hornið. Aukin sjálfvirkni og róbótavæðing kallar á viðbrögð stjórnmálamanna og atvinnulífs. Stjórnmálamenn eiga ekki að óttast þessar breytingar heldur fagna þeim og gæta þess að allir fái að njóta ávinnings þeirra.

Aukin misskipting eftir menntun og störfum mun án efa aukast og þarf að huga sérstaklega að því að menntakerfi samtímans og framtíðarinnar taki mið af þessum breytingum. Núverandi fjársvelti á framhalds- og háskólum verður okkur dýrkeypt til framtíðar. Við þurfum því sókn í menntamálum og nýsköpun. Verðmætasköpunin verður til í gegnum frumkvöðla, öfluga skóla og samtal ólíkra hópa og einstaklinga. Þessi sókn er ekki hafin og mun ekki hefjast fyrr en við fáum nýja ríkisstjórn.

Önnur samfélagsleg áskorun er breytt aldursamsetning þjóðarinnar. Fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á næstu 25 árum. Heilbrigðiskostnaður mun því aukast til muna ásamt kröfunum um góða þjónustu. Í því sambandi þurfum við öflugt opinbert heilbrigðiskerfi þar sem aðgengi að því er tryggt óháð efnahag.

Forsvarsmenn Landspítalans hafa ítrekað bent á að þeir fjármunir sem settir hafa verið í þennan málaflokk ná ekki einu sinni að halda í fólksfjölgunina, hvað þá að um sé að ræða einhverja sókn í þessum málaflokki sem öll þjóðin hefur verið að kalla eftir.

Þriðja áskorun framtíðarinnar eru umhverfismálin. Allar þjóðir eru á sama báti hvað þau varðar. Það er augljóst að Ísland þarf að vera í fararbroddi í þessum málaflokki. Framtíðarsýn Samfylkingarinnar byggist á stórsókn í skólum landsins og nýsköpun og jákvæðri afstöðu til tæknibreytinga þar sem tryggt er að allir landsmenn njóti þeirra. Stjórnmálamenn eiga ekki að skipuleggja framtíðina í þaula en þeir verða að vera tilbúnir að mæta henni með lausnum sem henta öllum, en ekki bara sumum.

 

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×