Erlent

Innanríkisráðherra segir af sér vegna skógarelda

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Skógareldarnir ollu miklu tjóni í Portúgal.
Skógareldarnir ollu miklu tjóni í Portúgal. vísir/afp
Constanca Urbano de Sousa, innanríkisráðherra Portúgal, sagði í gær af sér vegna skógarelda sem kostuðu að minnsta kosti 41 mann lífið í ríkinu á dögunum. Slökkviliðsstarf og almannavarnir eru á meðal verkefna portúgalska innanríkisráðuneytisins og hafa viðbrögð innanríkisráðuneytisins við hamförunum sætt mikilli gagnrýni.

Constanca Urbano de Sousa, innanríkisráðherra Portúgal.vísir/afp
Áður hafði afsagnar hennar verið krafist vegna skógarelda sem kostuðu sextíu lífið í júní síðastliðnum. Í afsagnarbréfi ráðherrans kemur fram að hún hafi boðist til þess að segja af sér á þeim tíma en forsætisráðherra hafi neitað. Nú væru hins vegar engar „pólitískar eða persónulegar forsendur“ til þess að halda áfram í starfi.

António Costa forsætisráðherra tilkynnti í gær að hann hefði meðtekið og samþykkt afsagnarbréf de Sousa. Áður hafði hann sagt að ekki kæmi til greina að stokka upp í ríkisstjórninni vegna skógareldanna.

Stjórnarandstöðuflokkurinn Fólksflokkurinn hefur lagt fram vantrauststillögu á alla ríkisstjórn Portúgal vegna viðbragða við skógareldunum og forseti landsins hefur kallað þingið saman til þess að ræða hvort ríkisstjórnin ætti að halda áfram störfum.

Sjálfum finnst forsetanum, Marcelo Rebelo de Sousa, að ríkisstjórnin hafi umboð frá þjóðinni til að tryggja sterkara slökkviliðsstarf og umbætur í forvörnum til þess að koma í veg fyrir frekari hamfarir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×