Erlent

Mannskæðasta skotárás í sögu Bandaríkjanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Að minnsta kosti 50 létust í árásinni og yfir 200 manns eru særðir.
Að minnsta kosti 50 létust í árásinni og yfir 200 manns eru særðir. vísir/afp
Skotárásin í Las Vegas í morgun er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna á síðari tímum.

Að minnsta kosti 50 eru látnir og meira en 200 manns eru særðir. Óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka. Mannskæðasta árásin var áður skotárás sem gerð var á skemmtistað hinsegin fólks í Orlando í Flórída í fyrra. Þá voru 49 manns skotnir til bana.

Árásarmaðurinn í Las Vegas hét Stephen Paddock. Hann var skotinn til bana af lögreglu. Paddock var 64 ára gamall en fjöldi skotvopna fannst á hótelherbergi hans á Mandalay-hótelinu þaðan sem hann skaut en herbergið er á 32. hæð.

Hinu megin við götuna frá hótelinu fór fram tónlistarhátíð utandyra þar sem um 40 þúsund manns voru komnir saman. Paddock skaut frá hótelinu sínu á mannfjöldann.

Talið er að Paddock hafi verið einn að verki og tengist ekki neinum hryðjuverkahópum. Ekkert er vitað um ástæður árásarinnar.

Lögreglan hóf strax leit að konu Paddock, Marilou Danley, og telur sig nú hafa fundið út hvar hún er. Vill lögreglan yfirheyra hana vegna málsins.

Paddock bjó í Mesquite í Nevada. Lögreglan leitar nú í húsi hans að vísbendingum og þá er hún búin að finna tvö ökutæki í hans eigu.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, fór á Twitter áðan og sendi samúðarkveðjur til fórnarlamba árásarinnar og aðstandenda þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira
×