Formúla 1

Bílskúrinn: Martröð Ferrari í Malasíu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Max Verstappen fann góða leið til að halda upp á tvítugsafmælið.
Max Verstappen fann góða leið til að halda upp á tvítugsafmælið. Vísir/Getty
Max Verstappen á Red Bull vann Formúlu 1 kappaksturinn í Malasíu um helgina. Ferrari liðið átti afleidda helgi.

Martröð Ferrari, forskot Lewis Hamilton, sigur tvítuga mannsins, hvar er hraði Mercedes liðsins? Hver var ökumaður keppninnar? Allt þetta verður til umræðu í Bílskúrnum, uppgjöri hvers kappaksturs hér á Vísi.

Þessi mynd lýsir helgi Ferrari liðsins ágætlega.Vísir/Getty
Martröð Ferrari

Mórallinn í Ferrari liðinu hefur oft verið betri, báðir bílar liðsins féllu úr leik í ræsingu í síðustu keppni, í fyrsta skipti í sögu þessa goðsagnakennda liðs. Það má því ætla að metnaðurinn hafi verið í hámarki í upphafi keppnishelgarinnar í Malasíu. Æfingarnar á föstudegi litu vel út.

Það kom svo upp rafmagnsvesen í vél Sebastian Vettel, vélvirkjar Ferrari unnu þrekvirki þegar þeir skiptu um vél í bílnum á milli æfingar á laugardagsmorgni og tímatökunnar. Bilunin var í tenginu á milli vélar og túrbínu. Vettel lagði af stað í tímatökuna en fékk ekkert afl og gat ekki sett tíma. Hann þurfti að ræsa afastur. Mikill skellur fyrir titilbaráttu Þjóðverjans.

Á ráslínunni kom upp sama bilun í bíl Kimi Raikkonen. Honum var trillað inn á þjónustusvæði þar sem vélvirkjarnir tóku til við að tæta bílinn í sundur en allt kom fyrir ekki, keppnin hófst án Raikkonen.

Vettel gerði sitt besta til að lágmarka skaðan og kom sér með mögnuðum akstri upp í fjórða sæti. Eitt er víst, Ferrari þurfti á hughreystandi helgi að halda, en liðið þarf að minnsta kosti að bíða hennar þangað til í Japan um komandi helgi.

Ekki skánaði staðan mikið eftir kappaksturinn í Malasíu þegar Lance Stroll keyrði á Vettel á innhringnum, Ferrari bíllinn kom töluvert illa út úr því. Eins tók Vettel stýrið með sér úr bílnum sem er bannað. Eitthvað hefur hann að fela á stýrinu sem hann vill ekki hleypa neinum nálægt. Til að bæta gráu ofan á svart þá settist hann upp á Sauber bíl Pascal Wehrlein og þáði far með samlanda sínum, slíkt er einnig bannað.

Það er nokkuð ljóst að annar þessara verður meistari en hvor? Líkurnar eru með Hamilton en það er ómögulegt að fullyrða.Vísir/Getty
Staðan í heimsmeistarakeppni ökumanna

Lewis Hamilton hafnaði í öðru sæti í Malasíu og jók þar með forskot sitt í heimsmeistarakeppni ökumanna í 34 stig, úr 28.

Hann er því afar líklegur til að vera kominn langt með að tryggja sér titilinn, eða hvað? Þegar fimm keppnir eru eftir á tímabilinu er ljóst að ef Vettel vinnur allar keppnirnar sem eftir eru og Hamilton verður annar er Vettel meistari. Nú, falli Hamilton úr leik í einni keppni sem Vettel vinnur, þá er munurinn skyndilega orðinn sáralítill.

Það er því enn hægt að segja eins og sagt er svo oft, það getur allt gerst í Formúlu 1.

Max Verstappen tók fram úr Hamilton á ráskaflanum.Vísir/Getty
Max Verstappen vann, en hvernig?

Max Verstappen átti afmæli á laugardaginn, þá varð hann tvítugur. Hvað gerir ungur maður á sunnudeginum eftir að hann verður tvítugur? Verstappen gerði sér lítið fyrir og vann einn kappakstur í Formúlu 1. Flestir aðrir eru ekki í standi til að gera neitt líkamlega erfitt.

Hann tók fram úr Hamilton sem þá leiddi keppnina á ráskaflanum snemma í keppninni og stakk svo einfaldlega af. Það var greinilegt að Hamilton hafði ekki hraðann sem þurfti til að halda í við Hollendinginn. Verstappen tók svo við að stýra hraðanum og ók af yfirvegun, skynsemi og öryggi alla leið í endamark og steig ekki feilspor á leiðinni. Vel gert hjá Max, sem vann þar með sína aðra keppni.

Fyrstu keppnina vann hann á Spáni í fyrra, í fyrstu keppni sinni hjá Red Bull, en hann fékk það sæti þegar Daniil Kvyat var lækkaður í tign og tók sæti Verstappen hjá systurliðinu, Toro Rosso. Um helgina sem leið var Kvyat ekki með, því Pierre Gasly fékk að spreyta sig í bíl Rússans, og Verstappen vann. Þegar Kvyat fær stöðulækkun vinnur Verstappen.

Er Mercedes liðið að missa flugið?Vísir/Getty
Mercedes að missa flugið?

Mercedes, meistarar undanfarinna ára, hafa verið nánast ósnertanlegir síðan 2014, þegar Hybrid tímabilið hófst. Í Singapúr fyrir tveimur vikum átti liðið afleidda byrjun og Hamilton vann þá keppni einungis vegna þess að þrír líklegustu aðilarnir til að vinna hana féllu úr leik í ræsingu.

Núna um helgina var lítið skárra upp á teningnum. Æfingarnar voru liðinu erfiðar og vonlaust virtist að finna jafnvægi í bílnum. Tímatakan var ágæt, en Hamilton virtist einfaldlega finna töframátt sinn í einn hring sem dugði til að tryggja ráspól. Hver veit hvað hefði gerst ef Vettel hefði verið með?

Þegar í keppnina var komið gat Hamilton alls ekki haldið aftur af Verstappen. Valtteri Bottas, gat ekki einu sinni haldið aftur af Vettel sem var þá búinn að taka fram úr um það bil öllum, nema Mercedes og Red Bull mönnum. Miðað við æfingarnar hefði Ferrari auðveldlega haft sigur í keppninni ef bílarnir hefðu veriuð í lagi alla helgina.

Sebastian Vettel vann sig upp um flest sæti í keppninni og barðist af hörku í gegnum afar erfiða helgi.Vísir/Getty
Ökumaður keppninnar

Vettel var ekki beint heppnasti maður helgarinnar en hann ók sennilega eina bestu keppnina, frá 20. sæti upp í það fjórða. Hann gerði meira að segja heiðarlega tilraun til að stela síðasta verðlaunasætinu af Daniel Ricciardo og munaði minnstu.

Sebastian Vettel hlýtur heiðurinn að vera ökumaður keppninnar, bæði hjá blaðamanni Vísis og áhorfendum því hann var valinn ökumaður keppninnar í formlegri könnun FIA. 


Tengdar fréttir

Ricciardo: Vettel átti bara eina alvöru tilraun

Max Verstappen vann í annað sinn á ferlinum í dag þegar hann kom fyrstur í mark í Malasíu. Hann varð tvítugur í gær og þetta var afar viðeigandi afmælisgjöf. Hver sagði hvað eftir keppnina?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×