Innlent

Sigríður Andersen braut lög

Jakob Bjarnar skrifar
Sigríður Andersen hefur átt betri daga. Héraðsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi brotið lög þá er hún skipaði dómara við Landsrétt.
Sigríður Andersen hefur átt betri daga. Héraðsdómur hefur komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi brotið lög þá er hún skipaði dómara við Landsrétt. visir/vilhelm

Ef dómsmálaráðherra taldi annmarka á áliti dómnefndar um umsækjendur um embætti Landsréttardómara hefði átt óska eftir nýju áliti nefndarinnar. Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur sem kvað upp dóm sinn í málinu í dag að því er fram kemur í tilkynningu frá Jóhannesi Karli Sveinssyni, hæstaréttarlögmanni til fréttastofu.

Jóhannes er lögmaður Ástráðs Haraldssonar, kæranda í málinu. Ástráður var einn fjögurra sem sérstök hæfisnefnd taldi að skipa ætti sæti í Landsrétti. Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra skipti Ástráði út ásamt þremur öðrum og skipaði fjóra aðra í þeirra stað.

Í dómnum er bent á að talið sé brot gegn „dómstólalögum og reglum stjórnsýsluréttar að hafa ekki borið saman reynslu og hæfni dómaraefna. Rökstuðningur hafi verið „óljós“ og heildstæður samanburður á umsækjendum hafi ekki farið fram. Ekki verði því fullyrt að ráðherra hafi valið 15 hæfustu einstaklingana í Landsrétt.“

Í tilkynningu Jóhannesar Karls er jafnframt tíundað að í niðurstöðukafla dómsins sé tekið fram að „stjórnsýslumeðferð ráðherra hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 50/2016 sem og skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins um rannsókn  máls, mat á hæfni umsækjenda og innbyrðis samanburð þeirra.“

Hins vegar var talið að stefnendum, þeim Ástráði Haraldssyni og Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, hafi tekist að sýna fram á að þeir hafi beðið tjón vegna þessara brota. Ríkið er því sýknað af kröfum um viðurkenningu á skaðabótaskyldu og af kröfum um miskabætur. Ástráður Haraldsson hefur ákveðið að áfrýja þessum þætti málsins til Hæstaréttar.

Dóminn í heild má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×