Erlent

Suu Kyi óttast ekki alþjóðlega rannsókn á þjóðernishreinsunum í Rakhine-héraði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar.
Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar. vísir/getty

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, hefur loksins tjáð sig um atburðina í Rakhine-héraði þar sem Sameinuðu þjóðirnar telja að nýverið hafi farið fram þjóðernishreinsanir á Rohingja-múslimum.

Hundruð þúsunda þeirra hafa lagt á flótta frá Mjanmar til Bangladess en Suu Kyi hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir að bregðast ekki við og reyna að koma í veg fyrir ofbeldið sem Rohingjar hafa orðið fyrir.

Suu Kyi mætti ekki á Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem nú fer fram en ávarpaði þjóð sína í beinni útsendingu. Kvaðst hún meðvituð um að augu heimsins beinist nú að ástandinu í Rakhine-héraði þó að hún hafi aldrei í ávarpinu minnsti á Rohingjanna beint heldur talað almennt um Múslima og hópa þeirra.

Sagðist Suu Kyi ekki óttast að fram færi alþjóðleg rannsókn á því sem þar hefði átt sér stað en að ríkisstjórn landsins þyrfti að komast að því hvað hefði raunverulega átt sér stað í héraðinu. Sameinuðu þjóðirnar segja morðin á Rohingja-múslimum skólabókardæmi um þjóðernishreinsanir.

„Það hafa verið ásakanir fram og til baka og við verðum að hlusta á þær allar. Við verðum að vera viss um að þessar ásakanir séu byggðar á sönnunargögnum áður en við förum í einhverjar aðgerðir,“ sagði Suu Kyi.

„Við viljum vita hvers vegna þessi fólksflótti er. Við viljum bæði tala við þá sem hafa flúið og þá sem hafa verið áfram í héraðinu.“

Meira en 400 þúsund Rohingja-múslimar hafa fluið Rakhine-hérað síðan í ágúst. Þeir dvelja í yfirfullum flóttamannabúðum í Bangladess og hafa þaðan sagt umheiminum frá nauðgunum, morðum og pyntingum sem þeir hafa sætt af hálfum hersins í Mjanmar.


Tengdar fréttir

Frá friðarverðlaunum til þjóðernishreinsana

Aung San Suu Kyi, leiðtogi Mjanmar, er sögð þegja á meðan almennir borgarar drepa Rohingja-múslima án dóms og laga. Suu Kyi er handhafi friðarverðlauna Nóbels og skora aðrir friðarverðlaunahafar á hana að binda enda á ofsóknirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×