Innlent

„Átján ára fangelsisrefsing er algjört lágmark“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Thomas Olsen bar vitni í síðusut viku. Hann mætti ekki í þingsal í dag.
Thomas Olsen bar vitni í síðusut viku. Hann mætti ekki í þingsal í dag. vísir/eyþór
Kolbrún Benediktsdóttir, saksóknari, telur það algjört lágmark að Héraðsdómur Reykjaness dæmi Thomas Olsen í átján ára fangelsi en hann er ákærður bæði fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana þann 14. janúar og fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot. Þetta kom fram við munnlegan málflutning í málinu í héraðsdómi eftir hádegi í dag.

Saksóknari fór yfir það að engin hefð er fyrir því hér á landi að dæma einstaklinga í lengra fangelsi fyrir manndráp en sextán ár þó heimilt sé að dæma menn í allt að ævilangt fangelsi fyrir brotið.

Þá væri það þumalputtaregla að eitt kíló af kannabisefnum þýddi einn mánuður í fangelsi en Thomas er ákærður fyrir að hafa haft 23 kíló af kannabisefnum í vörslu sinni. Það myndi því bæta tveimur árum við sextán ára fangelsisdóm fyrir manndráp.

Kolbrún beindi því þó til dómsins að hún teldi tilefni til þess að fara upp fyrir sextán ára fangelsi hvað varðaði ákæruliðinn sem snýr að manndrápinu vegna þess hversu hrottafenginn glæpurinn var. Þá benti hún jafnframt á Thomas hefði nýlega fengið refsidóm í Grænlandi og það gæti haft ítrekunaráhrif.

„En það er algjört lágmark ef bara er horft á dómafordæmi og þessi tvö ár sem myndu bætast við vegna fíkniefnalagabrotsins þá er algjört lágmark átján ára fangelsi. Það er þó tilefni til þyngingar að mati ákæruvaldsins [...] en átján ára fangelsi er algjört lágmark.“

Megininntakið í málflutningi Kolbrúnar var að ekki væri hægt að byggja á framburði Thomasar, hvorki hjá lögreglu né fyrir dómi, þegar tekin væri afstaða til sektar eða sakleysis hans. Sagði hún nær öll rannsóknargögn í málinu benda á Thomas og rakti hún hvernig hrekja mætti frásagnir hans af því sem gerðist nóttina sem Birna hvarf með gögnum málsins. Thomas hefur ávallt neitað sök í málinu. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×