Erlent

Fundu fornar rústir undan ströndum Túnis

Samúel Karl Ólason skrifar
Nú þegar hafa fundist vegir, minnisvarðar og um hundrað ílát sem notuð voru í fiskvinnslu.
Nú þegar hafa fundist vegir, minnisvarðar og um hundrað ílát sem notuð voru í fiskvinnslu. Vísir/AFP
Fornleifafræðingar hafa fundi umfangsmiklar rómverskar rústir borgarinnar Neapolis undan ströndum Túnis. Rústirnar eru á um tuttugu hektara svæði og virðast staðfesta að hlutar borgarinnar lentu undir vatni í mikilli flóðbylgju í kjölfar jarðskjálfta árið 365.

Leitað hefur verið að rústunum frá árinu 2010. Fornleifafræðingar frá bæði Túnis og Ítalíu hafa tekið þátt í leitinni.

Mountir Fantar, sem stýrt hefur leitinni, sagði AFP fréttaveitunni að um stóra uppgötvun hefði verið að ræða. Nú þegar hafa fundist vegir, minnisvarðar og um hundrað ílát sem notuð voru í fiskvinnslu.



„Uppgötvunin hefur gert okkur kleift að staðfesta að Neapolis hefur verið stór miðstöð vinnslu fisksósu og saltfisks. Jafnvel sú stærsta í öllu Rómarveldi.“

Talið er að stærðarinnar jarðskjálfti undan ströndum Krítar, þann 21. júlí árið 365, hafi myndað stórar flóðbylgjur sem ollu miklum skaða víða við austanvert Miðjarðarhafið.

Samkvæmt tilkynningu frá fornleifafræðingunum (á frönsku) fór um þriðjungur Neapolis á kaf. Samkvæmt fornum heimildum enduðu skip allt að tvo kílómetra upp á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×