Innlent

Hæstaréttarlögmaður spyr hvort vinatengsl hafi ráðið för við skipan dómaranna

Snærós Sindradóttir skrifar
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra
Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra vísir/anton brink

„Breyting ráðherra á niðurstöðu dómnefndar er því öðrum þræði á skjön við eigin rökstuðning. Það leiðir hugann að því að önnur og ef til vill ólögmæt sjónarmið hafi ráðið mati ráðherra á hæfi umsækjenda,“ segir í bréfi Jóns Höskuldssonar héraðsdómara til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Jón var metinn ellefti hæfasti umsækjandinn í starf dómara í Landsrétti en var ekki í tillögum dómsmálaráðherra um þá fimmtán sem skipa ber í starfið.

Jóhannes Karl Sveinsson, hæstaréttarlögmaður, spyr hvort annarleg sjónarmið hafi ríkt við ákvörðunina.vísir/anton brink

Í bréfi sínu til nefndarinnar andmælir Jón tillögu dómsmálaráðherra og segir: „Af þessu tilefni leyfir undirritaður sér að vekja athygli stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis á því að með tillögu ráðherra er undirritaður tekinn út einn héraðsdómara án þess að finna megi ástæðu þessa í skýringum ráðherrans. Undirritaður var skipaður héraðsdómari 15. maí 2010, eða fyrir sjö árum. Meðal þeirra sem ráðherra gerir tillögu um er héraðsdómari sem skipaður var sama dag og undirritaður og hefur því gegnt embætti héraðsdómara nákvæmlega jafn lengi.“

Jóhannes Karl Sveinsson hæstaréttarlögmaður ritaði nefndinni einnig umsögn. Hann segir tillögu ráðherra stefna í að vera ríkinu dýr vegna bótaréttar sem skapast. „Lét dómari stjórnmálaskoðanir (fortíðar) ráða þegar tilteknir umsækjendur voru látnir gossa út af dómnefndarlistanum? Urðu vina- og pólitísk tengsl til þess að aðrir voru teknir inn í þeirra stað o.s.frv. Svona hugsanir vill maður ekki þurfa að hlusta á í eigin höfði en það er því miður óhjákvæmilegt.“

Í umsögn Lögmannafélags Íslands segir að félagið telji ákvörðun dómsmálaráðherra síst til þess fallna að skapa nýjum dómstól það traust og veganesti sem nauðsynlegt sé í lýðræðisþjóðfélagi. „Að sama skapi eru það vonbrigði að ráðherra, sem var starfandi lögmaður, geri jafn lítið úr lögmannsreynslu, samanborið við reynslu af dómsstörfum, og raun ber vitni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×