Fótbolti

Borussia Dortmund stal stjóranum frá Ajax

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Peter Bosz talar við sína menn hjá Ajax.
Peter Bosz talar við sína menn hjá Ajax. Vísir/Getty
Peter Bosz verður næsti knattspyrnustjóri þýska liðsins Borussia Dortmund en félagið tilkynnti nýja stjórann sinn í dag.

Dortmund er þarmeð að taka þjálfarann af Ajax en Peter Bosz var með samning við hollenska liðið til ársins 2019.

Bosz tekur við stafinu hjá Dortmund af Thomas Tuchel sem hætti óvænt með liðið eftir tveggja ára starf. Samningur Peter Bosz og Dortmund er til næsti tveggja tímabila eða fram á sumar 2019.

Bosz tók við Ajax-liðinu af Frank de Boer í byrjun síðasta tímabils en undir stjórn Bosz komst hollenska liðið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þar sem liðið tapaði 2-0 fyrir Manchester United.

„Ég hef blendnar tilfinningar. Þegar við fengum Peter til að taka við Ajax síðasta sumar þá var það ekki stefnan að samstarfið myndi enda eftir aðeins eitt ár,“ sagði Edwin van der Sar, framkvæmdastjóri Ajax.

„Við áttum frábært tímabil og þá sérstaklega í Evrópudeildinni. Það er bara eins og með leikmennina okkar að það er mikill áhugi á þeim frá liðum í stærstu deildum Evrópu,“ sagði Van der Sar.

Peter Bosz er 54 ára gamall Hollendingur. Hann lék á sínum tíma sem miðjumaður og var lengst hjá Feyenoord. Hann var sem dæmi á miðjunni hjá Feyenoord þegar liðið tapaði 1-0 á móti ÍA á Laugardalsvellinum í september 1993.

Peter Bosz með Jose Mourinho eftir úrslitaleik Evrópudeildarinnar.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×