Innlent

Davíð Þór, Sigurður Tómas og Ragnheiður hæfust að mati nefndarinnar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Davíð Þór Björgvinsson var metinn hæfastur af nefndinni.
Davíð Þór Björgvinsson var metinn hæfastur af nefndinni.

Þau Davíð Þór Björgvinsson, Sigurður Tómasson og Ragnheiður Harðardóttir voru metin hæfust í embætti dómara við Landsrétt af sérstakri hæfnisnefnd en Kjarninn hefur lista nefndarinnar undir höndum og birti hann fyrr í kvöld.

Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, sniðgekk fjóra af þeim fimmtán sem dómnefndin mat hæfasta í tillögu sinni til Alþingis um skipan dómara við Landsrétt sem hún afhenti forseta þingsins í gær.

Þeir Ástráður Haraldsson, Eiríkur Jónsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Jón Höskuldsson hlutu ekki náð fyrir augum ráðherrans heldur þau Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson.

Eiríkur Jónsson er númer sjö á lista hæfnisnefndarinnar, Jón Höskuldsson er númer ellefu, Jóhannes Rúnar númer tólf og Ástráður númer fjórtán.

Athygli vekur að Jón Finnbjörnsson er númer þrjátíu á listanum af 33 en Ásmundur er númer sautján, Arnfríður númer átján og Ragnheiður Bragadóttir númer 23.

Ráðherra hefur sagt að hún hafi ekki talið hæfnisnefndina meta dómarastörf nóg í sínu mati en allir þeir fjórir einstaklingar sem hún leggur til þvert á mat nefndarinnar eru héraðsdómarar. Jón Höskuldsson er það reyndar líka en er þó ekki á lista ráðherra þó hann sé metinn einn af þeim hæfustu af nefndinni.

Stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd fjallaði á fundum sínum í dag um tillögu ráðherrans án þess að niðurstaða fengist í málið. Fundahöld halda áfram á morgun en skipa þarf dómara fyrir þinglok sem einmitt eru áætluð á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×