Erlent

Útvarpskona rekin fyrir að hvetja til helfarar í Bretlandi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Katie Hopkins (til hægri) á haustþingi UKIP árið 2015.
Katie Hopkins (til hægri) á haustþingi UKIP árið 2015. Vísir/Getty
Fjölmiðlakonunni Kate Hopkins hefur verið vikið frá störfum hjá bresku útvarpsstöðinni LBC í kjölfar ummæla hennar um að „lokalausnar“ væri þörf eftir árásina í Manchester.

Hopkins lét ummælin falla á Twitter á þriðjudag, daginn eftir árásina, en hún eyddi síðar tístinu. Skjáskot af því má sjá hér að neðan. Í tístinu skrifaði hún:

„22 látnir - talan hækkar. Schofield. Ekki dirfast. Ekki vera hluti af vandamálinu. Við þurfum lokalausn #Manchester"

Hugtakið „lokalausn“ er alla jafna notað um áætlanir nasista um að útrýma gyðingum í Evrópu í seinna stríði og túlkuðu netverjar, og yfirboðaðar Hopkins, tístið á þá leið að hún vildi að Bretar færu sömu leið í baráttu sinni við hryðjuverk.

Útvarpsstöðin hefur þó ekki viljað tjá sig við fjölmiðla um brottreksturinn.

Fjölmargir netverjar höfðu samband við lögregluna og bentu henni á tístið sem Hopkins segist ekki sjá eftir, þrátt fyrir að hafa mildað orðalagið í öðru tísti. Segir hún forskeytið „loka“ í upprunalegu færslunni hafa verið innsláttarvillu og breytti hún því í „rétta.“

Lögreglan hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem greint er frá því að málið sé til rannsóknar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Hopkins veldur usla með ummælum sínum. MailOnline, vinnuveitandi Hopkins, þurfti til að mynda að greiða 150 þúsund punda sekt í fyrra, sem jafngildir 19 milljónum króna, eftir að hún bendlaði breska fjölskyldu við hryðjuverkastarfsemi og sagði hana hafa tengsl við íslamska öfgamenn.

Donald Trump þakkaði Hopkins í desember árið 2015 fyrir „kraftmikil skrif hennar um múslimavandamál Bretlands“ og lýsti henni sem „virtum pistlahöfundi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×