Innlent

Hér sést hvar vegirnir lagast mest á landinu

Kristján Már Unnarsson skrifar

Framkvæmdir við Dýrafjarðargöng hefjast um næstu helgi en þau verða stærsta verkið í vegagerð á landinu á næstu árum. Þá styttist í að vegagerð um Berufjörð verði boðin út. Í spilaranum hér að ofan má sjá hvar á landinu verður unnið að mestu vegarbótum í ár. 



Það er nýbúið að skrifa undir nærri níu milljarða króna verksamning um Dýrafjarðargöng og laugardaginn 13. maí á svo að taka fyrstu skóflustungu Arnarfjarðarmegin, sem fagnað verður með málstofu á Hrafnseyri klukkan 13 og athöfn við Rauðsstaði klukkan 16, við fyrirhugaðan gangamunna tvo kílómetra norðan Mjólkárvirkjunar.



Og það verður fleiri vegarbótum fagnað á Vestfjörðum í ár; sex kílómetra malbikskafla í sunnanverðum Patreksfirði og sjö kílómetra kafla á Ströndum, milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar.



Norðlendingar fá sinn skammt af vegarbótum. Í Skagafirði verða lagðir fimm kílómetrar slitlags á Hegranesveg, að austanverðu. Í Vaðlaheiðargöngum er nýbúið að sprengja síðasta haftið og kannski fimmtán mánuðir í þau klárist.



Þá verður haldið áfram með Dettifossveg. Leggja á bundið slitlag á átta kílómetra kafla og hefjast handa við annan fjögurra kílómetra langan og þegar þeim lýkur verða aðeins eftir um tíu kílómetra af þessari fimmtíu kílómetra vegagerð.

Frá lagningu Dettifossvegar um Ásheiði, en þar er ekið milli Ásbyrgis og Hljóðakletta.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Á Austfjörðum hyllir undir verklok í Norðfjarðargöngum en áætlað er þau verði opnuð umferð þann 1. september, eftir fjóra mánuði. Og svo eru það tvö stórverk sem náðust í gegn með samstöðu heimamanna síðla vetrar, Berufjarðarbotn og Hornafjarðarbrú. Lokaáfanginn á hringveginum um Berufjörð verður boðinn út síðar í þessum mánuði og smíði nýrrar brúar yfir Hornafjarðarfljót verður boðin út í haust, samkvæmt upplýsingum vegamálastjóra. 



Þá verður smíði nýrrar brúar yfir Eldvatn hjá Ásum boðin út í sumar í stað þeirrar sem eyðilagðist í hamfarahlaupinu í Skaftá haustið 2015. Í uppsveitum Árnessýslu verða tveir fjölfarnir sveitavegir malbikaðir, Reykjavegur boðinn út í haust en þó ekki kláraður fyrr en árið 2020, og fimm kílómetrar slitlags verða lagðir á Langholtsveg sunnan Flúða. 



Á Uxahryggjaveg bætast sextán kílómetrar slitlags norðan Þingvalla og fjórir kílómetrar í Lundareykjadal og lokið verður við að malbika veginn um Kjósaskarð. Stærsta verkið suðvestanlands eru svo Krýsuvíkurgatnamótin við Hafnarfjörð og þau eiga að verða tilbúin 1. nóvember, eftir aðeins sex mánuði. 



Fræðast má nánar um framkvæmdir ársins á yfirlitskorti Vegagerðarinnar.


Tengdar fréttir

Dofri bauð lægst í Dýrafjarðargöng

Tékkneski verktakinn Metrostav og Suðurverk buðu lægst í Dýrafjarðargöng. Dofri Eysteinsson, forstjóri Suðurverks, vonast til að hefjast handa síðsumars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×