Erlent

Norður-kóreskir hakkarar hugsanlega á bak við tölvuárásina

Kjartan Hreinn Njálsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Árásin hófst um helgina og er ein skæðasta tölvuárás sem gerð hefur verið.
Árásin hófst um helgina og er ein skæðasta tölvuárás sem gerð hefur verið. vísir/getty
Bandaríska öryggisfyrirtækið Symantec og rússneska öryggisfyrirtækið Kaspersky telja sig hafa fundið vísbendingar sem gefa til kynna að norður-kóreskir hakkarar hafi verið að verki þegar tölvuvírusinn WannaCry fór af stað á föstudag.

Hakkararnir eru vel þekktir enda hafa þeir staðið fyrir fjölmörgum tölvuárásum í gegnum tíðina en þeir ganga undir nafninu Lazarus Group.

Fyrirtækið Symantec hefur í gegnum tíðina rakið slóð tölvuþrjóta með góðum árangri en starfsmenn þess uppgötvuðu gamla útgáfu af WannaCry-vírusnum sem innihélt kóða sem notaður var í árás á Sony Pictures í febrúar árið 2014.

Bandarísk yfirvöld telja einmitt að yfirvöld í Pyongyang hafi stutt þá árás og þá hafa Lazarus-hakkarnarnir verið þekktir fyrir að nota Bitcoin í árásum sínum líkt og gert er nú.

WannaCry-veiran hefur sýkt hundruð þúsund tölva um allan heim og er þetta ein skæðasta tölvuárás sem gerð hefur verið.

Möguleg tengsl við Norður-Kóreu koma á sama tíma og bandarísk stjórnvöld sæta gagnrýni fyrir að hamstra njósnahugbúnað og tölvuvírusa en WannaCry-vírusinn byggir á kóða sem tilheyrði stafrænu vopnabúri Bandarísku þjóðaröryggisstofnunarinnar, NSA, og var stolið þaðan í ágúst 2016.

Rannsókn á tilurð og uppruna WannaCry-óværunnar er á byrjunarstigi en líklegt þykir margir mánuðir muni líða áður en niðurstaða liggur fyrir.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

WannaCry: Vírusar sem virka

Öryggissérfræðingar vinna nú hörðum höndum að því að reyna að finna sökudólgana í tölvuárásinni sem læsti hundruðum þúsunda tölva um helgina.

Ekki enn vitað hverjir eiga smituðu tölvurnar

Grunur leikur á að tíu tölvur hér á landi hafi lent í gagnagíslatöku. Sá möguleiki er fyrir hendi að eigendurnir viti ekki af því sjálfir. Veiran hefur ráðist á meira en 200 þúsund tölvur víðsvegar um heim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×