Erlent

Frakkar segjast hafa fellt tuttugu skæruliða

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Franski herinn hefur haldið til í landinu frá árinu 2013.
Franski herinn hefur haldið til í landinu frá árinu 2013. vísir/afp
Franski herinn segist hafa fellt og handsamað að minnsta kosti tuttugu skæruliða sem héldu til í skógi á landamærum Malí og Búrkína Fasó í Vestur-Afríku um helgina. Árásin var gerð mánuði eftir að franskur hermaður var drepinn í landinu.

Herinn segir í yfirlýsingu að árásin hafi verið gerð á landi og úr lofti, en tekur ekki fram í hvaða samtökum uppreisnarmennirnir voru.

Róstusamt hefur verið í Malí síðustu ár, eða frá því að herskáir íslamistar náðu þar yfirráðum síðla árs 2012. Neyðarástand ríkir í landinu og ákvað þjóðaröryggisráðið í gær að framlengja viðbúnaðarstigið um sex mánuði til viðbótar. Franski herinn hefur reynt að tryggja öryggi í landinu frá árinu 2013 en árásir eru enn tíðar. Sömuleiðis hefur árásum fjölgað í nágrannaríkinu Búrkína Fasó.

Um fjögur þúsund franskir hermenn eru í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×