Fótbolti

Framlengt í þremur af fjórum leikjum í Evrópudeildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úrslitin í Besiktas og Lyon réðust í vítaspyrnukeppni.
Úrslitin í Besiktas og Lyon réðust í vítaspyrnukeppni. vísir/getty
Manchester United, Lyon, Ajax og Celta Vigo komust í kvöld í undanúrslit Evrópudeildarinnar.

Marcus Rashford tryggði United sigur á Anderlecht í framlengdum leik á Old Trafford. Tveir aðrir leikir voru framlengdir.

Besiktas vann Lyon á heimavelli, 2-1. Frakkarnir unnu fyrri leikinn með sömu markatölu og því réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni.

Hún var mögnuð en leikmenn liðanna skoruðu úr fyrstu 12 spyrnum sínum. Bæði lið klúðruðu sínum spyrnum í annarri umferð bráðabana en í þeirri næstu varði Anthony Lopes, markvörður Lyon, frá Matej Mitrovic. Maxim Gonalons skoraði svo úr næstu spyrnu Lyon og skaut Frökkunum áfram.

Þrátt fyrir að vera einum færri skoraði Ajax tvö mörk í lok framlengingarinnar gegn Schalke. Lokatölur 3-2, Ajax í vil en hollenska liðið vann einvígið 4-3 samanlagt.

Þá skildu Genk og Celta jöfn, 1-1. Spánverjarnir unnu fyrri leikinn 3-2 og fóru því áfram.


Tengdar fréttir

Rashford skaut United áfram í undanúrslit

Manchester United er komið áfram í undanúrslit Evrópudeildarinnar eftir 2-1 sigur á Anderlecht á Old Trafford í seinni leik liðanna í 8-liða úrslitum í kvöld. United vann einvígið, 3-2 samanlagt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×