Erlent

Óeirðalögregla kölluð út í kjölfar ráðstefnu andstæðinga íslam í Köln

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mikill fjöldi mótmælenda safnaðist saman í Köln í dag.
Mikill fjöldi mótmælenda safnaðist saman í Köln í dag. Vísir/AFP
Fjögurþúsund lögreglumenn hafa verið kallaðir út í Köln í Þýskalandi vegna mótmælenda af vinstri væng þýskra stjórnmála, sem safnast höfðu saman fyrir utan ráðstefnu þýska stjórnmálaflokksins Alternative fuer Deutschland, AfD. BBC greinir frá.

AfD er hægriflokkur og hefur sett sig gagngert upp á móti múslimum. Flokkurinn hyggst velja nýjan leiðtoga í forystu flokksins en kosið verður í Þýskalandi síðar á árinu.

Tveir lögreglumenn særðust er þeim lenti saman við mótmælendur. Þá hafa margir á svæðinu verið handteknir, einn í tengslum við meiðsl á lögreglumanni.

Mótmælendur eru um tíuþúsund og þyrlur lögreglu svífa yfir mannfjöldanum. Lögregluþjónar vinna flestir að því að varna mótmælendum inngangi að hótelinu þar sem ráðstefna AfD fer fram.

Frauke Petry, einn af leiðtogum flokksins og þekktasta andlit hans út á við, ætlar ekki að gefa kost á sér í komandi kosningum. Hún ávarpaði þó ráðstefnuna í dag og sagði að flokkurinn myndi „leiða landið og Evrópu í átt að nýju, blómstrandi lýðræði.“

Fylgi AfD jókst í kjölfar stefnu kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, í flóttamannamálum. Allir helstu stjórnmálaflokkar landsins hafa þó þvertekið fyrir að vilja mynda ríkisstjórn með flokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×