Formúla 1

Lewis Hamilton á ráspól í Ástralíu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Lewis Hamilton var fljótastur í dag á nýju brautarmeti á Albert Park.
Lewis Hamilton var fljótastur í dag á nýju brautarmeti á Albert Park. Vísir/Getty
Lewis Hamilton náði ráspól í fyrstu tímatöku Formúlu 1 tímabilsins. Sebastian Vettel varð annar á Ferrari og Valtteri Bottas varð þriðji á Mercedes.

Tímatakan var spennandi fyrir margar sakir. Einna helst af þeirri ástæðu að hún er fyrsta tilefnið sem liðin hafa til að raunverulega sýna hvað býr í bílum ársins.

Fyrsta lota

Ferrari menn komu út úr bílskúrnum á ofur-mjúkum dekkjum. Allir aðrir hófu leik á últra-mjúkum dekkjum sem eru mýkstu og jafnframt hröðustu dekkin sem völ er á. Ökumenn voru aðeins að athuga þanþol bílanna og þar af leiðandi töluvert um smá grasslátt í kringum brautina.

Í fyrstu lotu duttu út; Antonio Giovinazzi á Sauber, Kevin Magnussen á Haas, Stoffel Vandoorne á McLaren, Lance Stroll á Williams og Jolyon Palmer á Renault. Magnussen þvældist mikið utan brautar og náði ekki að setja almennilegan hring saman.

Stærsti munurinn var þó á Nico Hulkenberg og Palmer hjá Renault. Hulkenberg varð fimmti í fyrstu lotunni og Palmer 20. Fernando Alonso sýndi að McLaren bíllinn er ekki alveg vita vonlaus með því að koma honum í 12. sæti í fyrstu lotu.

Önnur lota

Valtteri Bottas setti fyrsta formlega brautarmetið í ár með sínum fyrsta hring í annarri lotu. Hann fór hringinn um Albert Park á 1.23:215. Hamilton og Ferrari menn komu þar rétt á eftir. Allir á sama fjórðungnum úr sekúndu. Vettel hins vegar var að fela eitthvað, hann hægði á sér um rúmlega 100 km/klst áður en hann lauk sínum hraðasta hring í lotunni.

Í annarri lotu duttu út; Sergio Perez á Force India, Nico Hulkenberg á Renault, Alonso á McLaren, Esteban Ocon á Force India og Marcus Ericsson á Sauber.

Daniel Ricciardo átti ekki neitt sérstakan dag í dag.Vísir/Getty
Þriðja lota

Raikkonen tilkynnti um regndropa í upphafi lotunnar en lítið varð úr því. Eftir að Mercedes og Ferrari menn höfðu tekið einn hring hver þá var Hamilton fljótastur með 0,3 sekúndna forskot á Vettel sem var annar og Bottas var þriðji og Raikkonen fjórði.

Heimamaðurinn Daniel Ricciardo á Red Bull setti ekki tíma í lotunni. Hann missti stjórn á bílnum og hafnaði á varnarvegg eftir að hafa skautað yfir malargryfju. Bíllinn skemmdist þó nokkuð að aftan og tímatakan stöðvuð tímabundið.

Þegar tímatakan hófst á ný fór Romain Grosjean á Haas á stjá og setti fínan tíma. Hamilton og Bottas komu svo út og tryggðu sér ráspól og þriðja besta tímann, með Vettel á milli sín.

Afleiðingar þriðju æfingarinnar

Vettel var fljótastur á þriðju æfingunni fyrir ástralska kappaksturinn. Hann setti hraðasta tíma sögunnar á Albert Park, fram að tímatökunni, 1.23:380.

Sauber ákvað að Pascal Wehrlein tæki ekki frekari þátt um helgina og þriðji ökumaður Ferrari, Giovinazzi tók við Sauber bíl Wehrlein. Þessi breyting er fylgifiskur meiðsla sem Wehrlein varð fyrir í janúar á keppni meistaranna.

„Ég er ekki í því líkamlega ástandi sem ég þyrfti að vera í til að fara heila keppnisvegalengd af því ég gat ekki æft vegna meiðsla. Ég útskýrði málið fyrir liðinu í gærkvöldi,“ sagði Wehrlein sem stefnir að því að vera orðinn heill fyrir kínverska kappaksturinn.

Lance Stroll þarf að taka út fimm sæta refsingu eftir að skipta þurfti um gírkassa í bíl nýliðans. Hann skellti bílnum utan í vegg á síðustu æfingunni fyrir tímatökuna.

Hér að neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.


Tengdar fréttir

Rúnar og Kristján Einar við kristalkúluna

Formúlu 1-sérfræðingar Stöðvar 2 Sport; Rúnar Jónsson og Kristján Einar Kristjánsson stilltu upp kristalkúlunni og spáðu fyrir um úrslit á Formúlu 1 tímabilinu sem hefst í Ástralíu um helgina.

Hamilton fljótastur á föstudagsæfingum í Ástralíu

Lewis Hamilton á Mercedes var fljótastur á fyrstu æfingum tímabilsins sem fram fór í Ástralíu í nótt. Valtteri Bottas á Mercedes varð annar á fyrri æfingunni og Sebastian Vettel á Ferrari varð annar á seinni æfingunni.

Upphitunarþáttur fyrir Formúluna

Keppnistímabilið í Formúlu 1 kappakstrinum rýkur af stað um helgina og Stöð 2 Sport hitaði að sjálfsögðu vel upp.

Ferrari sýnir klærnar og fær heimsmeistara

Nýtt tímabil í Formúlu 1 hefst snemma á sunnudagsmorgun þegar mikið breyttir bílarnir verða ræstir í Ástralíu. Gríðarlegar breytingar boða spennandi keppni. Sérfræðingur Stöðvar 2 Sport spáir endurkomu Ferrari á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×