Formúla 1

Vettel: Við erum komin til að berjast

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Sebastian Vettel vann fyrstu keppni tímabilsins í Ástralíu. Hann er því sá fyrsti sem leiðir heimsmeistarakeppni á Hybrid skeiði Formúlu 1 sem er ekki ökumaður Mercedes.

„Þetta er það sem liðið þurfti. Við erum búin að vinna hörðum höndum að þessu. Bíllinn var frábær og hagaði sér mjög vel. Þetta eru skilaboð, við erum komin til að berjast,“ sagði Vettel á verðlaunapallinum. Hann vann í dag sína fyrstu keppni síðan í Singapúr 2015.

„Ég þurfti að taka þjónustuhlé snemma því ég var búinn með dekkin. Ég var farinn að eiga erfitt með grip aftur í lokin. Helgin gekk vel fyrir utan keppnina,“ sagði Lewis Hamilton á verðlaunapallinum.

„Það er ekki slæmt að byrja tímabilið hjá nýju liði með verðlaunapalli. Við getum bætt okkur og förum nú að einbeita okkur að því. Rauðu mennirnir voru of fljótir í dag,“ sagði Valtteri Bottas ásínum tíunda verðlaunapalli á Formúlu 1 ferlinum.

„Við ætluðum að reyna að nota þjónustuhléin til að taka fram úr Hamilton. Tækifærið féll upp í hendurnar á okkur þegar Hamilton festist í umferð,“ sagði Jock Clear, yfirverkfræðingur Ferrari.

„Sebastian [Vettel] var mjög fljótur og gat sett pressu á okkur. Við töldum okkur vita að Ferrari væri í góðri stöðu strax á æfingum í Barselóna. Við vitum núna fyrir víst að tímabilið verður spennuþrungið, meira en undanfarið. Valtteri [Bottas] stóð sig mjög vel og hann átti frábæra helgi í heildina,“ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes sem mun eflaust leggjast yfir heimavinnuna sína á næstu dögum í leit að svörum við Ferrari.

„Á jákvæðum nótum, þá er ég að fara héðan. Þetta var langur dagur og ég vil helst að honum ljúki. Ég vakna á morgun og verð tilbúinn að hefja undirbúning fyrir Kína,“ sagði Daniel Ricciardo sem vill gleyma heimakeppninni sinni sem fyrst.

„Það kom mér aðeins á óvart að ég gat haldið í Kimi [Raikkonen]. Pressan var lítil frá bílum fyrir aftan mig,“ sagði Max Verstappen sem varð fimmti í dag á Red Bull bílnum.

„Ég var að aka mjög vel og við vorum óvænt í stigasæti. En að endingu kláruðum við ekki. Raunverulega erum við síðust, á venjulegri braut og með allt eins og það á að vera þá erum við með minnsta aflið,“ sagði Fernando Alonso sem hætti keppni þegar fjórir hringir voru eftir en var stóran hluta af keppninni í 10. sæti, sem er síðasta stiga sætið.


Tengdar fréttir

Lewis Hamilton á ráspól í Ástralíu

Lewis Hamilton náði ráspól í fyrstu tímatöku Formúlu 1 tímabilsins. Sebastian Vettel varð annar á Ferrari og Valtteri Bottas varð þriðji á Mercedes.

Sebastian Vettel vann í Ástralíu

Sebastian Vettel vann fyrstu keppni tímabilsins á Ferrari bílnum. Lewis Hamilton varð annar á Mervedes og Valtteri Bottas varð þriðji á Mercedes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×