Körfubolti

Allar spá þær Snæfelli og Keflavík í úrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stjörnukonan Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Snæfellingurinn Berglind Gunnarsdóttur brugðu á leik með nýja bikarinn sem nú verður keppt um í fyrsta sinn. Báðar voru þær valdar í úrvalslið seinni hlutans.
Stjörnukonan Ragna Margrét Brynjarsdóttir og Snæfellingurinn Berglind Gunnarsdóttur brugðu á leik með nýja bikarinn sem nú verður keppt um í fyrsta sinn. Báðar voru þær valdar í úrvalslið seinni hlutans. vísir/eyþór
Róðurinn verður þungur fyrir félögin tvö sem stíga í vikunni sín fyrstu spor í úrslitakeppni kvenna ef marka má þá sjö leikmenn Domino’s-deildar kvenna sem Fréttablaðið leitaði til. Spámannahópurinn er sammála um það að Snæfell og Keflavík spili til úrslita um titilinn í ár og allar nema tvær spá því að Snæfellsliðið verði Íslandsmeistari.

Snæfellsstelpur fá nú tækifæri til að gera það sem engu kvennaliði hefur tekist áður í sögu úrslitakeppninnar sem er að vinna Íslandsmeistaratitilinn fjögur ár í röð.

Snæfell vann sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil vorið 2014 og hefur ekki sleppt honum síðan. Heimavöllurinn hefur gegnt þar stóru hlutverki og þar hefur Snæfellsliðið unnið alla þrettán leiki sína í úrslitakeppninni undanfarin þrjú tímabil. Það þarf að breytast ætli lið að ná titlinum úr Hólminum.

Lið Skallagríms og Stjörnunnar eru bæði að skrifa sögu síns félags með því að komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn.

Þetta eru nýliðar deildarinnar undanfarin tvö tímabil og hafa bæði lið aukið fjölbreytni flórunnar í kvennakörfunni með metnaðarfullri uppbyggingu kvennaliða sinna. Nú eru þær mættar á stærsta sviðið en í vegi fyrir þeim standa tvö sigursælustu kvennalið síðustu ára.

Spámenn Fréttablaðsins hafa miklu meiri trú á fastagestum úrslitakeppninnar síðustu ár, Íslandsmeisturum Snæfells og bikarmeisturum Keflavíkur.

Það er líka margt með þeim. Þau eru tvö efstu liðin í deildinni, bæði með heimavallarréttinn í sínum einvígum og hafa spilað best eftir áramót. Þau hafa líka bæði unnið 4 af 5 deildar- og bikarleikjum gegn mótherjum sínum í úrslitakeppni.

Sería Snæfells og Stjörnunnar hefst í Stykkishólmi í kvöld en á morgun tekur Keflavík síðan á móti Skallagrími. Allir leikirnir verða sýndir beint á sportstöðvum 365.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×