Sport

Kappaksturinn endaði með slagmálum utan brautar | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyle Busch gengur í burtu eftir slagsmálin.
Kyle Busch gengur í burtu eftir slagsmálin. Vísir/Getty
Slagsmál keppenda rétt eftir keppni stálu senunni í NASCAR-kappakstursmóti í Las Vegas í Bandaríkjunum um helgina.

Martin Truex Jr. tryggði sér sigurinn í kappakstrinum en það voru allir að tala um það sem gerðist utan brautar og fyrir framan sjónvarpsmyndavélarnar þegar tveir blóðheitir ökumenn áttu eftir að gera upp hlutina.

Kyle Busch endaði kappaksturinn bæði utan brautar og blóðugur í framan eftir hnefauppgjör við annan ökumann eftir að menn voru komnir út úr bílunum.

Busch var allt annað en sáttur við Joey Logano eftir að bílar þeirra rákust saman í lokahring kappakstursins.

Það að áreksturinn gerðist svo seint í kappakstrinum varð til þess að Kyle Busch var ennþá alveg brjálaður út í Kyle Busch skömmu síðar þegar þeir hittust á viðgerðasvæðinu.

Það þurfti bæði aðstoðarmenn ökumannaanna tveggja og aðra til að ná þeim í sundur en báðir náðu þeir nokkrum góðum höggum.

Það efast enginn um það að Joey Logano var mjög grimmur í brautinni og það var hann sem snéri bíl Kyle Busch í lokahringnum sem orsakaði það að Kyle Busch tókst ekki að klára keppnina.

„Það var ekki mikið talað, bara nóg af hnefahöggum. Ég var bara að gefa allt mitt á lokakaflanum,“ sagði Joey Logano eftir atvikið.

„Mér var bara skóflað út úr brautinni. Hann keyrði inn í mig og eyðilagði allt fyrir mér. Svona er keppnismaðurinn Joey og ég ætlaði að láta hann finna fyrir því,“ sagði hinn blóðugi Kyle Busch við blaðamann en hann var greinilega ennþá öskuillur.

New York Post fjallaði um uppgjör félaganna innan sem utan brautar og hér fyrir neðan má sjá myndband af því þegar þeir hittust á viðgerðasvæðinu með fyrrnefndum afleiðingum.

Enn neðar er síðan myndband frá Fox sjónvarpsstöðinni af atvikinu og þar sést vel þegar yfirgefur svæðið blóðugur í framan sem og áreksturinn í brautinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×