Sport

Jafet fékk að eiga Bensa bikarinn: Fólk á Íslandi hrætt við það sem það þekkir ekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jafet Örn Þorsteinsson úr HFK vann Bensabikarinn til eignar á Íslandsmótinu í ólympískum hnefaleikum sem lauk í gærkvöldi en mótið fór fram í hinum nýja Mjölniskastala. Hann stefnir nú á atvinnumennsku. Kjartan Atli Kjartansson ræddi við hann í kvöldfréttum Stöðvar tvö.

Jafet Örn keppir í -75 kílógramma flokki og hefur verið afar sigursæll síðustu ár. Svo vel að hann hefur fengið hinn eftirsótta Bensa bikar til eignar, eftir að hafa fengið hann afhentan þrisvar í röð.

Bensa bikarinn fær sá hnefaleikakappi sem talið er hafa staðið sig best á Íslandsmótinu í hvert sinn. Í úrslitum lagði Jafet Arnór Má Grímsson, en bardaginn þótti afar jafn. Dómarar voru ekki einhuga, ákvörðunin var klofin eins og sagt er, en Jafet stóð uppi sem sigurvegari.

„Arnór er mjög efnilegur strákur og þetta var hörku bardagi alveg eins og í fyrra. Bara mjög skemmtilegt,“ sagði Jafet Örn Þorsteinsson í samtali við Kjartan Atla.

Alls var keppt í átta flokkum, sex karlaflokkum og tveimur kvennaflokkum. Jafet segir að hnefaleikar séu vaxandi á Íslandi, en samt telur hann Íslendinga var svolítið fordómafulla í garð íþróttarinnar.

„Ísland er mjög eftirá. Þetta var bannað svo lengi hérna og fólk er bara hrætt við það sem það þekkir ekki,“ sagði Jafet Örn.

Nú hefur Jafet átt frábæru gengi að fagna í mótum hér á landi, en hver eru næstu skref?

„Ég stefni á Norðurlandamót núna og ná svo fyrsta atvinnumannabardaganum í lok árs. Það er ekki alveg komið á hreint hvort það verður í Svíþjóð eða Danmörku,“ sagði Jafet Örn.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×