Körfubolti

Kjartan hættur sem formaður körfuknattleiksdeildar Hauka

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kjartan Freyr Ásmundsson er hættur sem formaður körfuknattleiksdeildar Hauka.
Kjartan Freyr Ásmundsson er hættur sem formaður körfuknattleiksdeildar Hauka.
Aðalfundur körfuknattleiksdeildar Hauka var haldinn í gær og urðu formannskipti á fundinum.

Kjartan Freyr Ásmundsson er ekki lengur formaður og var Jónas Jónmundsson kjörinn formaður í hans stað.

„Ég get alveg staðfest að það var stuttur aðdragandi að þessu. Það var skorað á mig af fólki innan félagsins og við ákváðum að láta á þetta reyna. Kjartan ákvað að gefa ekki kost á sér og því gekk þetta hratt yfir,“ segir Jónas um aðalfundinn í gær.

Jónas segist ekki vita hvort Kjartan hafi haft hug á því að bjóða sig fram en hafi hið minnsta ekki gert það eftir að Jónas hafði boðið sig fram.

Sjá einnig: Fjarvera Ívars getur hjálpað til

„Hann var búinn að gefa það í skyn að hann væri tilbúinn að víkja. Hann var búinn að nefna það. Það voru engin læti í þessu,“ segir Jónas en litlar breytingar voru gerðar á stjórninni.

Það hefur verið talsvert havarí í kringum skíðaferð þjálfara karlaliðs Hauka, Ívars Ásgrímssonar, en hann mun ekki stýra Haukum í gríðarlega mikilvægum leik á föstudaginn vegna ferðarinnar. Jónas segir að hans framboð tengist því máli ekki neitt.

„Nei, alls ekki. Það hefur ekkert með það að gera,“ segir Jónas en hann vill ekki tjá sig meira um það mál enda ákvörðun sem var tekin af öðrum. En ætlar Jónas að kalla þjálfarann heim úr fríinu fyrir leik?

„Nei, það verður ekki mitt fyrsta verk að kalla Ívar heim. Það mál stendur bara þar sem það stendur.“

Uppfært klukkan 14.15:

Kjartan vildi koma því á framfæri við íþróttadeild að hann hefði verið búinn að ákveða að hætta sem formaður.

Hann vildi aftur á móti gera það með öðrum hætti þar sem hann hafði áhyggjur af því að formannsskiptin myndu auka umfjöllun um liðið eins og raunin varð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×