Erlent

Dómsdagsklukkan færist 30 sekúndum nær heimsendi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vísindamenn segja að heimurinn færist æ nær heimsendi og hafa fært dómsdagsklukkuna svokölluðu nær miðnætti vegna Donald Trump. BBC greinir frá.

Kjarnorkuvísindamenn sem standa að baki tímaritinu Bulletin of the Atomic Scientist hafa frá árinu 1947 haldið úti dómsdagsklukkunni sem á að mæla hversu stutt er í heimsendi af mannavöldum.

Klukkan var í upphafi stillt á sjö mínútur í miðnætti og hefur færst fram og til baka allt frá árinu 1947. Því nærri sem klukkan er miðnætti því meiri líkur telja vísindamennirnir á að mikil áföll, heimsendir, muni dynja á mannkyni af mannavöldum.

Næst var klukkan miðnætti árið 1953 þegar klukkan var færð tvær mínútur í miðnætti eftir að Bandaríkjamenn og Sovétmenn framkvæmdu prófanir á vetnissprengjum.

Í dag stilltu vísindamenn klukkuna tvær og hálfa mínútu í miðnætti og hefur klukkan aldrei verið svo nálægt miðnætti frá árinu 1953.

Vísindamenn segja að orð Donald Trump Bandaríkjaforseta um loftslagsbreytingar og hlýnun jarðar, aukin kjarnorkuvopnaforða Bandaríska hersins og vantraust hans á leyniþjónustustofnunum setji heiminn í mikla hættu

Þetta er í fyrsta sinn sem vísirinn er færður um þrjátíu sekúndur en hann hefur ávallt verið færður fram, eða aftur, um eina mínútu. Segja vísindamennirnir að Trump sé nýtekinn við embætti og að hann eigi að njóta vafans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×