Erlent

Ringulreið á flugvöllum vegna múslimabanns Trumps: Fólk kemst ekki heim til sín

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Tveir írakskir ríkisborgarar hafa höfðað mál gegn Bandaríkjaforseta.
Tveir írakskir ríkisborgarar hafa höfðað mál gegn Bandaríkjaforseta. Nordicphotos/AFP
Ringulreið skapaðist á flugvöllum í dag vegna tilskipunar Bandaríkjaforseta um að meina öllum ríkisborgurum Íraks, Írans, Líbíu, Sómalíu, Súdans, Sýrlands og Jemens inngöngu í Bandaríkin. The Guardian greinir frá

Bannið gildir einnig um þá sem hafa varanlegt dvalar- og atvinnuleyfi í Bandaríkjunum.

Samkvæmt The Guardian mun bannið þó ekki taka til fólks sem tilheyrir trúarminnihlutum í áðurnefndum ríkjum en þau eiga það sameiginlegt að meirihluti íbúa þeirra aðhyllist Íslam.

Fjölmiðlum vestanhafs hafa borist fjölmargar tilkynningar um nemendur bandarískra háskóla sem geta ekki snúið aftur til Bandaríkjanna eftir að hafa verið staddir utan landsteinanna.

The New York Times greindi meðal annars frá því að nemanda hins virta MIT háskóla í Boston hafi verið meinað að fara um borð í flugvél sem átti að ferja hann til Bandaríkjanna og annar nemi sagði á Twitter að þar sem hann gæti ekki snúið aftur til Bandaríkjanna úr fríi myndi hann neyðast til þess að binda snöggan endi á námsferill sinn við Yale-háskóla.

Höfða mál gegn Trump

Greint hefur verið frá því að tveir írakskir ríkisborgarar hafi þegar höfðað mál vegna atviks sem átti sér stað í gær en mönnunum var meinuð innganga í landið í gær og þeir látnir dúsa í yfirheyrsluherbergjum næturlangt.

Mennirnir tveir, Hameed Khalid Darweesh og Haider Sameer Alshawi voru teknir afsíðis í kjölfar vegabréfsskoðunar á John F. Kennedy alþjóðaflugvellinum í New York í gær.

Báðir mennirnir eru handhafar græna kortsins og hafa því ótímabundið dvalar- og atvinnuleyfi í Bandaríkjunum. Darweesh hefur starfað í áratug sem túlkur fyrir Bandaríkjaher en hann var á leið heim til sín úr fríi. Alshawi hefur að sama skapi starfað fyrir bandaríska ríkið í áraraðir.

Þeim var haldið í yfirheyrsluherbergjum í nótt ásamt tíu einstaklingum í svipaðri stöðu. Í morgun brutust út mótmæli í álmu 4 á John F. Kennedy flugvellinum vegna málsins. 

Darweesh hefur verið sleppt úr haldi og fékk hann leyfi til þess að fara inn fyrir landamæri Bandaríkjanna. Nýjustu fregnir herma að Alshawi sé hins vegar enn í haldi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×