Innlent

Birnu enn saknað: „Þetta er stelpa sem er ekki í neinu rugli“

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Engar vísbendingar hafa fundist um ferðir Birnu.
Engar vísbendingar hafa fundist um ferðir Birnu. vísir/skjáskot
Birna Brjánsdóttir, stúlkan sem saknað hefur verið frá því í gærmorgun, er enn ófundin. Móðir Birnu sagði í samtali við Vísi að hópur sjálfboðaliða leitaði nú að henni í Hafnarfirði.

Þeir sem taka þátt í leitinni eru aðallega vinir Birnu og skyldmenni. Móðir Birnu segir leitin hafi ekki borið nokkurn árangur og biðlar til björgunarsveitanna. „Leitin gengur ekki neitt. Ég vil kalla eftir allsherjaraðstoð og vil að allar björgunarsveitir aðstoði við leitina,“ segir hún. 

Að hennar sögn hefur lögreglan enn ekki tekið þátt í leitinni vegna skorts á vísbendingum. „Það eina sem við erum með í höndunum er að sími Birnu virðist hafa orðið rafmagnslaus klukkan 5:50 í Hafnarfirði, í grennd við gömlu slökkvistöðina,“ segir hún.

Svæðið er talsvert stórt og segir móðir Birnu að vinir og ættingjar Birnu gangi nú í hús með mynd af henni og spyrjist fyrir um hvort einhver hafi orðið var við ferðir hennar.

Kom fjölskyldunni í opna skjöldu

Móðir Birnu segir að hvarf hennar hafi komið sér og fjölskyldunni í opna skjöldu. „Þetta er stelpa sem er ekki í neinu rugli. Hún er ekki að strjúka að heiman,“ fullyrðir hún.

Móðir Birnu segir að hún hafi átt að mæta til vinnu bæði á laugardag og sunnudag en hún hefði ekki boðað forföll. „Vinkona hennar var vaktstjóri yfir henni og hún sagði að þetta hefði aldrei komið fyrir áður.“

Birna er fædd árið 1996 og er því tvítug. Hún er 170 sm há og um það bil 70 kíló. Hún er með sítt ljósrautt hár og var klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu, svartan flísjakka með hettu og svarta Dr. Martin skó þegar síðast spurðist til hennar. 

Þeir sem geta gefið upplýsingar um ferðir Birnu eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×