Innlent

Útgerð Polar Nanoq: Engin kæra verið lögð fram á hendur neinum í áhöfninni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Grænlenski togarinn Polar Nanoq.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq. víðir már hermannsson
Engin kæra hefur verið lögð fram gegn neinum í áhöfn grænlenska skipsins Polar Nanoq að því er segir í tilkynningu Polar Seafood, útgerð togarans. Útgerðin heitir því að veita lögreglu alla mögulega aðstoð við rannsókn málsins. Útgerðastjórinn, Jørgen Fossheim, er á leið til Íslands frá Danmörku, að því segir á RÚV.

Íslenska lögreglan rannsakar hvort að einn eða fleiri í áhöfn togarans Polar Nanoq geti veitt upplýsingar um Birnu Brjánsdóttur sem leitað hefur verið frá aðfaranótt laugardags.

Sjá einnig: Skipverjar hissa, ringlaðir og ákváðu sjálfir að snúa við skipinu

Einn úr áhöfn Nanoq Polar var með rauða Kia Rio-bílinn, sem lögreglan lagði hald á í gær, á leigu aðfaranótt laugardags þegar Birna hvarf. Lögreglan óskaði eftir aðstoð danska herskipsins Tríton vegna rannsóknarinnar. 

„Við komum til með að veita íslenskum yfirvöldum alla mögulega aðstoð við að upplýsa þetta sorglega mál. Við áréttum að sem stendur eru engar sannanir fyrir nokkurs konar tengingu og þar af leiðandi hefur engin kæra verið lögð fram á hendur nokkrum í áhöfninni,“ segir í tilkynningu frá Polar Seafood.

Greint var frá því í Fréttablaðinu í dag að  skipverjum Polar Nanoq þyki undarlegt að þeim hafi ekki verið greint frá þeim lögregluaðgerðum sem beinast að skipinu.

Reiknað er með að skipið leggjist að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn um klukkan 23 í kvöld.

Tilkynning frá Polar Seafood í heild sinni

„Íslenska lögreglan hefur nú til rannsóknar hvort einn eða fleiri í áhöfn togarans Polar Nanoq geti veitt upplýsingar um unga konu sem er leitað.

Þegar við komumst að því að íslenska lögreglan hefði greint mögulega tengingu milli hvarfs ungu konunnar og togarans Polar Nanoq, sendum við strax boð um að togaranum skyldi snúið aftur til Íslands og settum okkur þegar í samband við yfirvöld. Við komum til með að veita íslenskum yfirvöldum alla mögulega aðstoð við að upplýsa þetta sorglega mál. Við áréttum að sem stendur eru engar sannanir fyrir nokkurs konar tengingu og þar af leiðandi hefur engin kæra verið lögð fram á hendur nokkrum í áhöfninni.

Sem fyrirtæki styðjum við áhöfn okkar og veitum henni hverja þá hjálp sem þörf er á.

Málið verður vonandi sem fyrst upplýst að fullu. Fram að þeim tíma höfum við ekki meira um það að segja.

Jørgen Fossheim,

flotastjóri hjá Polar Seafood“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×