Innlent

Laufey Rún aðstoðar dómsmálaráðherra

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Laufey Rún Ketilsdóttir lögfræðingur hefur verið ráðin aðstoðarmaður Sigríðar Á. Andersen, dómsmálaráðherra. Laufey Rún hefur þegar hafið störf.

Laufey Rún er fædd 18. júní 1987 í Reykjavík. Hún er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands (BA) og Háskólanum í Reykjavík (MA). Þá lauk hún stúdentsprófi af hagfræðibraut Verzlunarskóla Íslands.

Í frétt á vef innanríkisráðuneytisins segir að Laufey Rún hafi starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá árinu 2014 en þar áður unnið hjá Juris lögmannsstofu, Gjaldskilum innheimtuþjónustu, regluvörslu Arion banka og í viðskiptaumsjón Kaupþings.

Laufey Rún er formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna og situr í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins. Þá var hún framkvæmdastjóri SUS árið 2015 og hefur setið í stjórn sambandsins frá 2010. Laufey sat áður í stjórn Heimdallar, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjavík. Á námsárum sat Laufey í ritnefnd Úlfljóts, tímarits laganema.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×