Innlent

TF-LÍF komin aftur til Reykjavíkur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
TF-LÍF þyrla Landhelgisgæslunnar.
TF-LÍF þyrla Landhelgisgæslunnar. Vísir/Vilhelm
Þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan 14:13 en þyrlan fór frá vellinum um hálftólf í dag með sérsveitarmenn innanborðs.

Á vef RÚV er greint frá því að þyrlan hafi verið dregin beint inn í flugskýli um leið og hún lenti og ekki hafi neinn stigið frá borði áður en hún fór inn í skýlið. Því er ekki vitað hvort að sérsveitarmennirnir hafi komið aftur með þyrlunni eða einhverjir aðrir.

Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, vildi ekkert tjá sig um ferðir þyrlunnar þegar eftir því var leitað.

Greint var frá því fyrr í dag að þyrlan hefði farið frá Reykjavíkurflugvelli og sáust sérsveitarmenn fara um borð í hana í myndskeiði RÚV.

Síðdegis í gær óskaði lögregla eftir aðstoð danska varðskipsins Triton vegna málsins, en skipið hafði verið á siglingu á Faxaflóa, og herma heimildir fréttastofu að gæsluþyrla hafi flogið með nokkra íslenska sérsveitarmenn um borð í Triton.

Danska varðskipið siglir til móts við grænlenska togarann Polar Nanoq sem snúið var við í gær og er nú á leiðinni aftur til Íslands.

Lögreglan hefur ekkert viljað segja um aðgerðir sínar í tengslum við Polar Nanoq en í gær var greint frá því að skipverji á skipinu væri grunaður um að hafa haft á leigu rauðan Kia Rio-bíl sem talinn er mögulega tengjast hvarfi Birnu Brjánsdóttur sem saknað hefur verið síðan á aðfaranótt laugardags.

Hvort að bætt hafi verið í mannskap sérsveitarinnar í Triton nú eða hvort einhverjir hafi komið til baka með þyrlunni í dag liggur ekki fyrir.

Fréttin var uppfærð klukkan 14:51.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×