Handbolti

Guðmundur: Mér er mikill vandi á höndum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur kveður danska landsliðið eftir HM í Frakklandi.
Guðmundur kveður danska landsliðið eftir HM í Frakklandi. vísir/getty
Eftir stórsigurinn á Egyptum í gær grínaðist Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Dana, með að honum væri mikill vandi á honum.

Danir unnu leikinn gegn Eygptum með 10 marka mun, 36-26, og hafa því unnið báða leiki sína í Bygma bikarnum, æfingamóti fyrir HM í Frakklandi sem hefst í næstu viku.

Guðmundur kveðst ánægður með það sem hann hefur séð til sinna manna í Bygma bikarnum og segir að það verði erfitt fyrir hann að velja endanlegan HM-hóp.

„Þetta verður mjög erfitt fyrir mig. Margir hafa staðið sig vel og eftir leikinn í dag [gær] er orðið enn erfiðara að velja lokahópinn. Við eigum enn einn leik eftir og þá prófum við kannski nokkra nýja hluti,“ sagði Guðmundur.

Annað kvöld mætast Ísland og Danmörk í Árósum, í síðasta leiknum í Bygma bikarnum. Eftir hann þarf Guðmundur að velja 16 manna lokahóp sem fer á HM. Hann segir þó allt eins líklegt að hann taki 17 leikmenn með til Frakklands.

„Það getur vel verið að ég fari með 17 leikmenn. Ég er með marga mjög góða leikmenn og það er gott að hafa leikmann sem getur komið inn í liðið ef meiðsli koma upp,“ sagði Guðmundur sem hættir sem kunnugt er þjálfun danska liðsins eftir HM.

Danir eru í riðli með Katar, Svíþjóð, Egyptalandi, Barein og Argentínu á HM.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×