Sport

Hatton reyndi margoft að fyrirfara sér

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ricky Hatton.
Ricky Hatton. vísir/getty
Fyrrum heimsmeistarinn í hnefaleikum, Ricky Hatton, hefur lengi glímt við þunglyndi og segir að hnefaleikakappar þurfi meiri aðstoð til að glíma við sín vandamál.

„Ég reyndi margoft að fyrirfara mér. Ég fór á barinn, kom svo heim og náði mér í hníf. Sat með hann út í dimmu horni og grét stanslaust,“ sagði Hatton sem hefur verið óhræddur við að tala um veikindi sín.

Það eru sex ár síðan Hatton hætti að keppa en hann er núna þjálfari og skipuleggjandi hnefaleikaviðburða.

„Á stundum kom það fyrir að ég hafði ekki drukkið í nokkra daga en samt leið mér illa er ég kom heim. Þá fór ég að hugsa um dimma hluti. Það var sama útkoma hjá mér hvort sem ég drakk eða ekki. Á endanum fékk ég þá hugmynd að drekka þar til ég myndi deyja. Það gekk ekki en ég endaði þá í eiturlyfjunum.“

Hatton er á meðal þeirra sem hafa talað fyrir því að hnefaleikasamböndin séu með sjóði sem boxarar geti leitað í ef þeir þurfa á sálfræðiaðstoð að halda.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×