Sport

Besta jólagjöfin að geta hreyft aftur fingurna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tékkneska tenniskonan Petra Kvitova hitti fjölmiðla í dag í fyrsta sinn eftir að hún varð fyrir hnífaárás á heimili sínu.

Kvitova meiddist illa á vinstri hendi og þurfti að fara í fjögurra tíma aðgerð. Nú lítur út fyrir að hún geti spilað aftur en það verður þó ekki fyrr en eftir sex mánuði.

Petra Kvitova, sem er 26 ára gömul, er í ellefta sæti heimslistans og vann bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst. Hún vann Wimbledon-mótið 2011 og 2014.

Petra Kvitova talaði um stundina þegar hún gat aftur hreyft fingurna á hendinni sem skarst svona illa. „Besta hugsanlega jólagjöfin sem ég gat óskað mér,“ sagði Petra Kvitova við fjölmiðlamenn.

„Þrátt fyrir að það sem gerðist fyrir mig hafi verið óhuggulegt þá lít ég ekki á mig sem fórnarlamb. Ég vorkenni ekki sjálfri mér og ætla ekki að horfa til baka,“ sagði Kvitova.

„Ég mun nota alla mína orku í að einbeita mér að batanum og ég mun gera allt sem í mínu valdi til þess að komast aftur í sportið sem ég elska,“ sagði Kvitova.

Vísir/EPA

Tengdar fréttir

Petra Kvitova: Heppin að vera á lífi

Tékkneska tenniskonan Petra Kvitova verður frá í þrjá mánuði eftir að hafa orðið fyrir árás á heimili sínu í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×