Fótbolti

Fyrsta mark Mkhitaryan og Manchester United fór áfram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Henrikh Mkhitaryan með boltann í leiknum í dag.
Henrikh Mkhitaryan með boltann í leiknum í dag. Vísir/Getty
Henrikh Mkhitaryan skoraði sitt fyrsta mark fyrir Manchester United þegar liðið tryggði sér sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar með 2-0 útisigur á Zorya Luhansk.

Bæði mörk Manchester United komu í seinni hálfleiknum en yfirburðir liðsins voru miklir allan tímann á móti þessu neðsta liði riðilsins.

Sigurinn dugði Manchester United þó ekki til að vinna A-riðilinn því tyrkneska félagið Fenerbahce vann 1-0 útisigur á Feyenoord og tryggði sér með því toppsætið. Senegal-maðurinn Moussa Sow skoraði sigurmarkið strax á 22. mínútu.

Henrikh Mkhitaryan kom Manchester United í 1-0 í upphafi seinni hálfleiks eftir einstaklingsframtak. Hann fékk boltann við miðjuna og labbaði í gegnum vörn úkraínska liðsins.

Þetta var fyrsta markið hjá Henrikh Mkhitaryan en hann var að spila sinn ellefta leik fyrir félagið.

Zlatan Ibrahimovic innsiglaði síðan sigurinn á 87. mínútu þegar hann skoraði annað markið eftir glæsilegan undirbúning Paul Pogba.

Zlatan Ibrahimovic hefur þar með skorað sjö mörk í síðustu sex leikjum sínum með Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×