Fótbolti

Mínútuþögn á æfingum Real Madrid og Barcelona í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Samsett mynd
Leikmenn Barcelona og Real Madrid minntust fórnarlamba flugslysins í Kólumbíu á æfingum sínum í dag.

19 af 22 leikmönnum brasilíska liðsins Chapecoence létust þegar flugvél þeirra hrapaði á leið sinni til í Kólumbíu. Alls létust 76 manns í slysinu en bara sex komust lífs af.

Framundan er El Clasico á laugardaginn og eru bæði lið Real og Barca að undirbúa sig fyrir einn af risaleikjum tímabilsins á Spáni.

Fótboltaheimurinn hefur allur brugðist við þessum skelfilegu fréttum frá Suður-Ameríku og margir fótboltamenn hafa sent aðstandendum fórnarlambanna samúðarkveðjur.

Leikmenn Barcelona og Real Madrid minntust fórnarlamba flugslyssins með mínútuþögn á æfingum liðanna í dag eins og sjá má hér fyrir neðan.















 Brasilískir leikmenn spila bæði með Real Madrid og Barcelona en þjóðarsorg hefur verið í Brasilíu eftir að fréttist af örlögum leikmanna Chapecoence.

Þeir einu sem lifðu flugslysið af voru varnarmennirnir Alan Luciano Rushel og Helio Hermito Zampier sem og varamarkvörðurinn Jackson Ragnar Follman. Markverðinum Danilo var bjargað úr flakinu og fluttur á sjúkrahús en lést þar af sárum sínum.

Aðeins þrír til viðbótar lifðu af flugslysið en það voru blaðamaðurinn Rafael Valmorbida og flugþjónarnir Ximena Suárez og Erwin Tumiri. Rafael Valmorbida var einn af 22 blaðamönnum sem fylgdu liði Chapecoence í þennan sögulega leik sem átti að fara fram á morgun en hefur nú verið aflýst.

Chapecoence var búið að ná sögulegum árangri með því að komast alla leið í úrslitaleikinn í Copa Sudamericana sem er næststærsta keppni Suður-Ameríku og ígildi Evrópudeildarinnar.

Chapecoense komst í úrslitaleik keppninnar fyrir aðeins sex dögum síður og var að fljúga í fyrri úrslitaleikinn á móti kólumbíska liðinu Atlético Nacional þegar flugvélin hrapaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×