Innlent

Göngugötur í miðborginni á Airwaves

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Samkvæmt tillögunni verður hluta Laugavegs og Skólavörðustígs breytt í göngugötur í þá fimm daga sem hátíðin stendur yfir.
Samkvæmt tillögunni verður hluta Laugavegs og Skólavörðustígs breytt í göngugötur í þá fimm daga sem hátíðin stendur yfir. Vísir/GVA
Borgarráð samþykkti í dag tillögu um að gera hluta Laugavegs og Skólavörðustígs að göngugötum á meðan Iceland Airwaves hátíðin stendur yfir. Tillagan fer til endanlegrar staðfestingar borgarstjórnar á fundi hennar þann 1. nóvember næstkomandi.

Iceland Airwaves verður haldin 2.-6. nóvember og er búist við um sex þúsund erlendum gestum. Samhliða hátíðinni verður töluvert af hliðarviðburðum um alla Reykjavík.

„Hliðarviðburðirnir eru opnir fyrir alla og því má gera ráð fyrir mun fleiri gestum á hátíðina en þeim níu þúsund sem hafa keypt miða. Hátíðin setur mikinn svip á borgina og henni fylgir fjölbreytt mannlíf. Flestir tónleikar á hátíðinni verða miðsvæðis í borginni og því er kjörið að bjóða upp á göngugötur á nokkrum svæðum,“ segir í tilkynning frá Reykjavíkurborg.

Samkvæmt tillögunni verður hluta Laugavegs og Skólavörðustígs breytt í göngugötur í þá fimm daga sem hátíðin stendur yfir.

Eftirtaldir hlutar gatnanna verða göngugötur; Laugavegur frá Vatnsstíg að gatnamótum Bankastrætis og Þingholtstrætis og Skólavörðustígur, frá gatnamótum Bergstaðastrætis að Bankastræti.

Vöruafgreiðsla frá bílum verður leyfð í göngugötunum frá kl. 7 – 11 á morgnana.

Auk þessa verður Bankastræti lokað vegna viðburðar í tengslum við Airwaves og Pönksafn Íslands þann 2. nóvember frá kl. 15:00 – 00:00.

Á þeim tíma verður ekki hægt að aka niður Þingholtsstræti og Skólastræti að Bankastræti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×