Sport

Arnar Davíð í tíunda sæti eftir fyrsta dag EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Davíð Jónsson og Hafdís Pála Jónasdóttir úr KFR.
Arnar Davíð Jónsson og Hafdís Pála Jónasdóttir úr KFR. Mynd/Keilusamband Íslands
Íslandsmeistararnir Arnar Davíð Jónsson og Hafdís Pála Jónasdóttir úr KFR taka þessa dagana þátt í Evrópumóti landsmeistara í kelu sem fer fram í Olomouc í Tékklandi.

Arnar Davíð Jónsson byrjaði mjög vel á fyrsta degi og er hann í tíunda sæti af 40 keppendum. Arnar Davíð var í seinni riðlinum í karlaflokki en spilamennskan í fyrri riðlinum var mjög góð.

Arnar byrjaði daginn mjög vel með því að spila fyrst á 267 og hann fylgdi því síðan eftir með 259 og 257. Eftir það dalaði spilamennska Arnars aðeins en allir leikir í dag, fyrir utan sjöunda leik, voru þó mjög ásættanlegir.

Dagurinn skilaði Arnari Davíð 1801 sem gera 225,1 að meðaltali en allir keppendur hafa nú lokið 8 leikjum. Á morgun eru leiknir 8 leikir til viðbótar og eftir þá komast sextán efstu keppendurnir áfram í úrslit.

Arnar Davíð á því möguleika á því að komast í úrslit Evrópumótsins sem væri frábær árangur hjá stráknum.

Hafdís Pála hóf leik í gær á Evrópumótinu og átti erfiðan dag. Eftir ágætis byrjun í fyrsta leik reyndist það sem á eftir kom frekar erfitt. Hafdís var að kasta ágætlega en gekk illa að finna línu og einnig var leifaspilið ekki að ganga nógu vel.  

Hafdís Pála endaði með 1319 í 8 leikjum sem gera 164,9 að meðaltali sem skilaði henni í sextánda sætinu í sínum riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×