Enski boltinn

Stuðningsmenn grýttu svínum inn á völlinn

Svínin töfðu upphaf leiksins um nokkrar mínútur og skal engan undra.
Svínin töfðu upphaf leiksins um nokkrar mínútur og skal engan undra. Vísir
Stuðningsmenn Charlton og Coventry sameinuðust í mótmælum við upphaf leiks liðanna í enska boltanum í dag og köstuðu hundruðum plastsvína inn á völlinn.

Liðin voru að mótmæla eigendum liða sinna og skipulögðu jafnframt sameiginlega skrúðgöngu á völlinn. Leikurinn frestaðist um nokkrar mínútur á meðan verið var að hreinsa plastsvínin af vellinum en Charlton stóð uppi sem sigurvegari í leiknum sjálfum, unnu 3-0 sigur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn Charlton mótmæla en eigandi þeirra Roland Duchatelet er mjög umdeildur meðal stuðninsmannanna.

Þjálfari Charlton, Russell Slade, sagði að þessi mótmæli hefðu vissulega verið öðruvísi en þau sem höfðu farið fram áður.

„Þetta var öðruvísi, ég verð að viðurkenna það. Mótmæli er eitthvað sem hefur átt sér stað margoft í sögunni. Þegar fólk er óánægt á það rétt á að tjá sína skoðun og það hafa stuðningsmennirnir gert í dag. Svo lengi sem öryggis er gætt þá er það í góðu lagi,“ sagði Slade í viðtali við BBC að leik loknum.

„Einbeiting okkar verður að snúast að því sem gerist inni á vellinum og við erum að leggja afar hart að okkur til þess að svo sé,“ bætti Slade við.

Svínunum var kastað alls staðar af úr stúkunni.

„Þetta var allt gert á sama tíma þannig að stuðningsmennirnir voru augljóslega búnir að skipuleggja sig,“ sagði blaðamaður BBC á vellinum.

Hér fyrir neðan má svo sjá tvö skemmtileg tíst sem Charlton birti á Twitter reikningi félagsins á meðan á mótmælunum stóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×