Enski boltinn

FA gæti haft samband við Mourinho vegna ummæla um Taylor

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jose Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United.
Jose Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United. vísir/getty
Jose Mourinho gæti verið í vandræðum vegna ummæla sinna um dómarann Anthony Taylor sem dæmir leik Liverpool og Manchester United annað kvöld.

Anthony Taylor mun halda á flautunni þegar Liverpool tekur á móti Manchester United í stórleik í ensku úrvalsdeildinni á morgun. Taylor er búsettur í nágrenni Old Trafford, sem er heimavöllur United, og það vakti athygli í umræðu um leikinn í vikunni.

Fyrrum dómarinn Keith Hacket sagði til dæmis að sú staðreynd að Taylor sé búsettur svo nálægt Old Trafford setti á hann auka pressu fyrir leikinn. Taylor dæmir fyrir utandeildarliðið Altrincham.

Nú hefur Mourinho blandað sér í umræðuna og vill meina að erfitt verði fyrir Taylor að dæma vel í leiknum á morgun.

„Ég hef skoðun á málinu en ég hef lært mína lexíu eftir að hafa verið svo oft refsað fyrir hvað ég segi, þannig að ég vil ekki tjá mig um þetta,“ sagði Mourinho en bætti þó við.

„Mér finnst herra Taylor vera mjög góður dómari en ég held að það sé einhver vísvitandi að setja pressu á hann og ég held að það verði erfitt fyrir hann að sýna góða frammistöðu.“

Þessi ummæli gætu komið Mourinho í vandræði því samkvæmt reglum FA mega leikmenn eða þjálfarar ekki tjá sig um dómara fyrir leiki á hátt sem gæti haft áhrif á þeirra störf. Þessar reglur voru settar árið 2009.

Samkvæmt frétt Sky Sports er enska knattspyrnusambandið að skoða ummæli Mourinho og munu hafa samband við knattspyrnustjórann til að athuga hvort rannsaka þurfi málið frekar.

Leikur Liverpool og Manchester United verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD klukkan 19:00 annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×