Enski boltinn

Þjálfari Burnley óánægður með Mike Dean

Sean Dyche var ósáttur með dómarann í leiknum gegn Southampton.
Sean Dyche var ósáttur með dómarann í leiknum gegn Southampton.
Sean Dyche þjálfari Burnley var óánægður með Mike Dean dómara í leik Burnley og Southampton í dag.

Southampton lagði Burnley 3-1 á St.Marys í dag þar sem Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley. Jóhann Berg fékk dæmda á sig vítaspyrnu sem Southampton skoraði þriðja markið úr og komst þá í 3-0.

Sean Dyche þjálfari Burnley var ósáttur með vítaspyrnuna sem dæmd var á Jóhann Berg og vildi þar að auki meina að Íslendingurinn knái hefði átt fá vítaspyrnu sjálfur. Hann lét þessa skoðun sína í ljós í viðtali við BBC eftir leik.

„Við hefðum átt að fá vítaspyrnu í stöðunni 0-0 og það hefði breytt leiknum. Það segir ekki alla söguna því þeir eru með mjög gott lið en við þurftum að fá þessa ákvörðun með okkur. Þetta var enginn vafi, það var ómögulegt að taka ranga ákvörðun,“ sagði Dyche og var þar að auki ekki sáttur með vítaspyrnuna sem dæmd var á Jóhann Berg fyrir að fella Sam McQueen.

„Vítaspyrnan sem þeir fengu var vafasöm, snertingin var afar lítil ef það var einhver snerting. Ég er ekki að koma með afsakanir, þeir hefðu getað skorað meira, en þú þarft að fá svona ákvarðanir með þér,“ bætti Dyche við.

Southampton er ósigrað í síðustu níu leikjum á heimavelli en Burnley hefur enn ekki fengið stig á útivelli á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×