Innlent

Framsókn myndi missa tvo af fjórum þingmönnum sínum í Suðurkjördæmi

Atli Ísleifsson skrifar
Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur flokka í Suðurkjördæmi samkvæmt nýrri könnun fréttastofu 365. Könnunin byggir á könnunum sem fréttastofa hefur gert á undanförnum vikum.

Sjálfstæðisflokkurinn nýtur stuðnings 30,7 prósent aðspurðra og fengi þrjá þingmenn kjörna, en hefur nú fjóra þingmenn. Framsóknarflokkurinn mælist með 20,5 prósent fylgi, fengi tvo þingmenn kjörna, en er nú með fjóra.

Framsókn tapar miklu fylgi, en flokkurinn hlaut 34,4 prósent atkvæða í kosningunum 2013, en Sjálfstæðisflokkurinn 28,3 prósent.

Vinstri græn mælast með 14,1 prósent fylgi, Píratar 13,7 prósent, Samfylking 7,3 prósent og Björt framtíð 5,9 prósent, og fengju flokkarnir allir einn þingmann kjörinn.

Vinstri græn bæta því mikið við sig, en flokkurinn hlaut 5,9 prósent atkvæða í kosningunum 2013. Sömu sögu er að segja af Pírötum sem hlutu 4,7 prósent í síðustu kosningum.

Viðreisn mælist með 4,7 prósent fylgi í kjördæminu og fengi ekki mann kjörinn. Íslenska þjóðfylkingin mælist með 1,5 prósent fylgi í kjördæminu, Dögun 0,9 prósent og Flokkur fólksins 0,8 prósent, en aðrir flokkar mældust ekki.

Rétt er að benda á að uppbótarþingmaður kjördæmisins er ekki reiknaður með í þessum útreikningum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×