Erlent

Segir Obama að „fara til helvítis“

Samúel Karl Ólason skrifar
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja.
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Vísir/AFP
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, sagði Barack Obama, forseta Bandaríkjanna að fara til helvítis í dag. Hann sagði Bandaríkin hafa neitað að selja ríkisstjórn sinni vopn, en honum væri slétt sama þar sem þeir myndu þess í stað kaupa þau frá Rússlandi og Kína.

Duterte flutti þrjár ræður í Manila, höfuðborg landsins, í dag þar sem hann sagðist ætla að gera grundvallarbreytingar á utanríkisstefnu Filippseyja. Hann sakaði Bandaríkin um að hafa brugðist þjóðinni.

Á einum tímapunkti sagðist Duterte ætla að „hætta með“ Bandaríkjunum samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

„Ef þú vilt ekki selja okkur vopn, förum við til Rússlands. Ég hef sent hershöfðingja til Rússlands og Rússland sagði: „Hafðu engar áhyggjur, við eigum allt sem þú þarft, við munum útvega þér það“. Kína sagði: „Komdu bara og skrifaðu undir og allt verður afhent,“ sagði Duterte.

Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, John Kirby, segir ummæli Duterte stangast á við gott samband Filippseyja og Bandaríkjanna og þá miklu samvinnu sem þjóðirnar hafi staðið og standi enn í undir Rodrigo Duterte.

Forsetinn beindi reiði sinni einnig að Evrópusambandinu og sagði að þeir þyrftu að fara í hreinsunareld þar sem helvíti væri fullt.

Bandaríkin, ESB, Sameinuðu þjóðirnar og mannréttindasamtök hafa gagnrýnt „átak“ Duterte gegn fíkniefnum í Filippseyjum. Talið er að rúmlega þrjú þúsund grunaðir fíkniefnasalar og neytendur hafi verið banað af lögreglu og hópum vopnaðs fólks í landinu á einungis þremur mánuðum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Duterte vandar Obama ekki kveðjurnar en hann hefur áður kallað hann „hóruson“.


Tengdar fréttir

Duterte líkir sjálfum sér við Hitler

Forseti Filippseyja segir að á Fillipseyjum væru þrjár milljónir eiturlyfjasjúklinga og að hann myndi glaður vilja slátra þeim öllum.

Kallaði Obama hóruson

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, varaði Obama við því að gagnrýni sig fyrir mannréttindabrot.

Enn versnar samband Duterte og Bandaríkjanna

Hinn umdeildi forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte, lýsti því yfir í gær að fyrirhuguð heræfing í landinu þar sem Bandaríkjamenn og Filippseyski herinn taka þátt verði þær síðustu af slíkum toga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×