Formúla 1

Max Verstappen og Nico Rosberg fljótastir á æfingum

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Max Verstappen hinn ungi var fljótur að finna taktinn á Marina Bay brautinni.
Max Verstappen hinn ungi var fljótur að finna taktinn á Marina Bay brautinni. Vísir/Getty
Max Verstappen á Red Bull var fljótastur á fyrri æfingu dagsins á Marina Bay brautinni í Singapúr. Nico Rosberg á Mercedes varð fljótastur á seinni æfingunni.

Fyrri æfingin

Red Bull fann taktinn á hlykkjóttri brautinni. Verstappen var fljótastur á æfingunni og liðsfélagi hans, Daniel Ricciardo varð annar. Þriðji varð Sebastian Vettel á Ferrari, tæpri hálfri sekúndu á eftir Verstappen.

Mercedes ökumennirnir röðuðu sér í fjórða og fimmta sæti á æfingunni. Rosberg hafnaði á varnarvegg á æfingunni og braut með því framvænginn undan bíl sínum.

McLaren ætlar sér stóra hluti um helgina en Jenson Button byrjaði æfinguna á því að nema staðar á leið út á brautina. Eldsneytiskerfið í bíl hans bilaði. Hann endaði æfinguna í 16. sæti. Fernando Alonso endaði æfinguna í 11. sæti, sem er líklega raunverulegri niðurstaða fyrir McLaren um helgina.

Rosberg mun ræsa af stað í sinn 200. Formúlu 1 kappakstur á sunnudag.Vísir/Getty
Seinni æfingin

Rosberg varð fljótastur á seinni æfingunni. Kimi Raikkonen varð annar á Ferrari bílnum, rétt rúmum fjórðung úr sekúndu á eftir Rosberg.

Red Bull náði þriðja og fjórða besta tímanum á æfingunni og aftur var Verstappen á undan liðsfélaga sínum, Ricciardo. Ricciardo snérist á brautinni í beygju 11.

Glussaleki gerði vart við sig í Mercedes bíl Hamilton sem batt snemmbúinn enda á æfinguna hjá honum. Hamilton endaði sjöundi á æfingunni.

Tímatakan á morgun ætti að verða spennandi með tilliti til þess sem gerðist á æfingum í dag.

Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 12:50 á morgun á Stöð 2 Sport 3. Bein útsending frá keppninni hefst svo á Stöð 2 Sport 3 klukkan 11:30 á sunnudag.

Hér að neðan má sjá öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti.


Tengdar fréttir

Mercedes vonast eftir betri keppni í Singapúr

Mercedes liðið í Formúlu 1 telur sig hafa fundið útskýringu slakrar frammistöðu í Singapúr á síðasta ári. Þá voru báðir ökumenn liðsins rúmri sekúndu frá ráspól í tímatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×