Innlent

Þorgerður Katrín: Stefnir á forystusæti í Suðvesturkjördæmi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Vísir/Daníel
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, fyrrverandi varaformaður Sjálfstæðisflokksins og menntamálaráðherra, hefur ákveðið að ganga til liðs við Viðreisn. Hún stefnir á forystusæti í Suðvestur kjördæmi.

„Ég steig út úr pólitík á sínum tíma og hef fylgst náttúrulega vel með henni og ég viðurkenni það alveg að pólitískur áhugi hefur ekki slokknað. Maður leitar í pólitík útaf hugmyndum og hugsjón. Ég sé viðreisn sem frjálslynt afl sem samfélagið hefur verið að kalla eftir til ákveðinna breyting á því sem við höfum meðal annars verið að ræða,“ segir Þorgerður Katrín í samtali við Vísi.

Aðspurð segir Þorgerður Katrín að henni finnist vera vöntun á frjálslyndu afli í stjórnmálum á Íslandi.

„Annars væri ég ekki að taka þetta skref, sem er í rauninni ekkert auðvelt þegar maður hefur verið lengi virkur í flokkstarfi þess góða flokks sem er Sjálfstæðisflokkurinn,“ segir Þorgerður Katrín, sem segist hafa tekið endanlega ákvörðun í hádeginu í dag. „Eftir stendur að ég stefni að því að koma inn aftur og þá hugsar maður einfaldlega hvernig er hægt að nýta tímann til að ná fram ákveðnum breytingum.“

Meðal þeirra mála sem Þorgerður Katrín segist leggja áherslu á eru breytingar á velferðarkerfinu, jöfnun atkvæðisréttar og að þjóðaratkvæðagreiðsla verði um áframhaldandi viðræður Íslands við Evrópusambandið.

„Það er ákveðið ákall eftir skynsömum breytingum á þeim kerfum sem halda samfélaginu okkar uppi,“ segir Þorgerður Katrín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×