Körfubolti

Durant með stórleik í sigri Bandaríkjanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kevin Durant og Manu Ginobili eigast við.
Kevin Durant og Manu Ginobili eigast við. vísir/getty
Bandaríska körfuboltalandsliðið er komið í undanúrslit á Ólympíuleikum í enn eitt skiptið eftir öruggan 27 stiga sigur, 105-78, á Argentínu í kvöld.

Kevin Durant skoraði 27 stig fyrir bandaríska liðið sem mætir því spænska í undanúrslitunum á föstudaginn.

Argentínumenn byrjuðu leikinn í kvöld betur og eftir sex mínútna leik var staðan 9-19, þeim í vil. Bandaríkin svöruðu með 16-2 kafla og leiddu með fjórum stigum, 25-21, eftir 1. leikhluta.

Í hálfleik var munurinn kominn upp í 16 stig, 56-40, og Bandaríkjamenn gáfu hvergi eftir í 3. leikhluta sem þeir unnu með 10 stigum, 31-21. Á endanum munaði 27 stigum á liðunum, 105-78.

Durant var sem áður sagði stigahæstur í bandaríska liðinu með 27 stig en hann hitti úr sjö af níu þriggja stiga skotum sínum í leiknum.

Paul George skoraði 17 stig og DeMarcus Cousins 15 stig en allir leikmenn Bandaríkjanna komust á blað í kvöld.

Luis Scola og Manu Ginobili voru stigahæstir hjá Argentínu með 15 og 14 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×